Það gladdi mitt litla húðsnyrtifræðings hjarta að sjá nýtt rakakrem á markaðnum sem inniheldur hvönn. Hvönn eða Angelica archangelica eins og hún heitir á latnesku er forn lækningajurt sem býr yfir margþættum eiginleikum.
Eiginleiki hennar til að binda raka í miklum mæli er ein helsta ástæða þess að L’OCCITANE valdi að nota hana í nýja rakalínu. Þess utan hefur hvönnin bakteríudrepandi eiginleika og er stútfull af anoxunarefnum.
HALLÓ! Þetta er allt sem þarf fyrir hina týpísku blönduðu húð, í íslenskri veðráttu, til að viðhalda góðum raka og ferskleika húðarinnar.
Hægt er að fá bæði Hydra vital krem og Hydra Vital gel í þessari línu sem bæði ilma af léttum hvannarkeim. Það er óhætt að segja að ég mæli með þeim báðum frá hjarta og hvannarrótum.
Hydra vital gelið hentar feitri og blandaðri húð einstaklega vel , er ekki ertandi og kemur því vel til greina fyrir vandamálahúð. Hydra vital kremið er mjög gott fyrir þurra og yfirborðsþurra húð, skilur ekki eftir sig gljáa en heldur húðinni vel nærðri út daginn.
L’OCCITANE ANGELICA er því eitthvað fyrir alla. Til að tvöfalda virknina má svo fá sér te úr hvannarfræum og næra húðina ekki einungis að utan heldur einnig innan frá.
Brynhildur Stefánsdóttir er bóndakona í bogmannsmerkinu og starfandi snyrtifræðingur á snyrtistofunni Dekur Akranesi. Hún eignaðist þrjú börn á fjórum árum, fór svo í Snyrtiakademíuna og útskrifaðist (dúx) vorið 2012. Hún er fædd í desember 1977 á Akranesi en hefur búið í Reykjavík og Manchester. Flutti fyrir 10 árum út í sveit á kúabúið Ytra Hólm og líður vel í druslugallanum innan um matjurtirnar en einnig uppstríluð í múg og margmenni. Lífsmottó: The best is yet to come