Okkur konum er oft lofað lýtalausu lúkki með förðum sem leynast í hinum ýmsu krukkum og dollum. Það er þó alls ekki alltaf raunin og stundum liggja slíkar vörur fyrir skemmdum í baðskápnum, pjattrófupyngjan bara léttari fyrir vikið og brúnin þyngri.
Bobbi Brown stendur þó ávallt við stóru orðin og fljótandi farðinn Moisture Rich Foundation er hreint út sagt fullkominn. Ég valdi mér lit sem nefnist Warm Beige en hann er mildur og hlýr og hressir því upp á föla vetrarvanga. Farðinn þekur vel yfir allar misfellur og litabreytingar andlitshúðarinnar og áferðin er dásamlega silkikennd.
Bobbi Brown Moisture Rich Foundation er sérlega rakagefandi farði en gefur þó ekki glansandi áferð, heldur frekar matta. Það er ekki nauðsynlegt að bera rakakrem á húðina á undan farðanum en það gæti þó hentað þeim sem eru með einstaklega þurra húð.
Sérfræðingarnir hjá Bobbi Brown kalla Moisture Rich Foundation sparifarðann og mæla með hann sé notaður við sérstök tilefni eins og brúðkaup, við myndatökur og hvers kyns veisluhöld.
Sem sagt: Glimrandi góður hátíðarfarði sem kemur vel að notum í flauelsmjúku rökkrinu í desember!
Hrund Hauksdóttir er blaðamaður, hljóðbókalesari, nautnaseggur og pjattrófa. Hún stundaði háskólanám í fjölmiðlun í Bandaríkjunum og félagsfræði við HÍ. Hrund ritstýrði Vikunni frá 2000-2002 og var eins konar partípenni sunndagsútgáfu Morgunblaðsins 2006-2009, þar sem hún skrifaði undir heitinu Flugan en undanfarin 6 ár hefur Hrund skrifað kynningarefni fyrir Frjálsa Verslun.
Nýjasta Pjattrófan er miðbæjarmaddama sem les bækur af ástríðu, stundum nokkrar í einu, enda er hún í tvíburamerkinu og skiptir hratt og auðveldlega um skoðun.