Gosh Growth Mascara… Ég er búin að vera með þennan maskara í snyrtibuddunni í að verða tvær vikur. Við erum voðalega hrifin af hvort öðru.
Það þarf venjulega mikið til svo að ég sé sátt með maskara. Það fer alveg með geðheilsu mína ef þeir klessast, klínast upp á augnlokið, myljast niður á kinn eða eitthvað þaðan af verra.
Ég nota yfirleitt maskara frá Benefit eða Maybelline og er ákaflega treg til þess að skipta eða prófa eitthvað nýtt. Þessi maskari er alls ekki síðri en þessir frá ofangreindum merkjum og er á ferlega fínu verði eins og aðrar vörur frá Gosh.
Maskarinn er paraben og ilmefnalaus sem er auðvitað stór plús. Hann inniheldur einnig formúlu sem eykur vöxt augnháranna og styrkir þau. Árangur er sagður koma í ljós eftir tvær vikur.
Ég er bara búin að nota hann í tæplega tvær vikur sko. Þannig að ég hlýt að fara að sjá einhvern mun fljólega. Annars má kaupa með maskaranum svokallað growth serum.
Þetta serum er borið við augnháralínuna að kvöldi. Serumið inniheldur tvær formúlur; önnur formúlan á styrkja augnhárin á meðan hin örvar hárvöxt og má því líka bera þetta í augnbrúnir.
Ég er í miðri tilraunastarfsemi með þetta ágæta serum – ég mun því fjalla betur um það síðar.
Maskaranum mæli ég hinsvegar vel með – hann er alveg hreint ljómandi góður, – bæði endist hann vel og lengir og þykkir.
Guðrún Veiga er mannfræðingur að mennt. Týpískt naut, kann vel að meta veraldleg gæði og þrjósk með eindæmum, fagurkeri og eyðslukló.
Naglalökk eru hennar helsti veikleiki og líkamsrækt stundar hún ekki en viðheldur brennslunni með óhóflegri kaffidrykkju.