Ó, það sem ég elska þessa litlu kraftaverkaflösku frá Garnier.
Þetta er hreinsisápa sem maður kreistir fram í þennan ljómandi fína bursta sem situr fastur á tappanum. Burstinn er ótrúlega mjúkur og agalega hressandi að strjúka honum yfir andlitið.
Í sameiningu hreinsa sápann og burstinn óhreinindi og dauðar húðfrumur af andlitinu. Þessi stórfína vara á að koma í veg fyrir bólu- og fílapenslamyndun og hjálpa manni að losna við slíkan ófögnuð, sé hann fyrir hendi.
Ég hef notað þetta í allt sumar með ótrúlegum árangri. Ég á það til að verða bólótt þó ég sé talsvert eldri en 13 ára en eftir að ég fór að nota þessa hreinsisápu á hverju kvöldi hefur húðin á mér aldrei verið eins góð.
Og það þykir mér stórmerkilegt vegna þess að ég hef prófað ýmsilegt og eytt fáránlega mikið af peningum í allskyns snyrtivörur sem hafa lofað mér bót og betrun.
Þessi dásemd kostar hinsvegar ekki nema rétt rúmlega 1000 krónur og fæst í næstu matvörubúð. Ég mæli að minnsta kosti eindregið með að þú hendir svona stykki í körfuna í næsta búðarleiðangri!
Guðrún Veiga er mannfræðingur að mennt. Týpískt naut, kann vel að meta veraldleg gæði og þrjósk með eindæmum, fagurkeri og eyðslukló.
Naglalökk eru hennar helsti veikleiki og líkamsrækt stundar hún ekki en viðheldur brennslunni með óhóflegri kaffidrykkju.