Ég hef alla tíð átt pínu erfitt með að finna ilmvatn sem ég elska. Þegar ég byrjaði að ganga með ilmvötn þá blandaði ég sjálf saman einhverjum mjög háværum Bodyshop ilmolíum til þess að skapa mér mína drauma lykt… ætli það sé ekki óhætt að segja að þetta hafi verið meira svona ilmfoss en ilmvatn.
Lyktin öskraði á mann en hvíslaði ekki eins og öll falleg ilmvötn ættu helst að gera og ég leitaði á önnur mið eftir nokkrar tímamótablöndur í olíudeildinni. Ákvað einfaldlega að leyfa fagfólki að sjá um þessar blöndur.
Það virðist oft verða þannig að ég finn mína draumalykt og þá hættir hún í framleiðslu þannig að ég held ótrauð áfram eins og Indiana Jones í leit minni að gyllta bikarnum fylltum af hinu allra fegursta tærasta ilmandi vatni.
Ég ætla að deila með ykkur, kæru lesendur Pjattsins, ferðalagi mínu í þessari leit.
Drauma ilmvatnið mitt er sætt en kryddað, kvenlegt en samt ekki of væmið og ekki of frekt, svona lykt sem þú manst og vilt finna aftur og aftur.
Svona lykt sem stelpan mín gæti fundið lyktina af treflinum mínum og viljað knúsa þegar ég er ekki hér og svona lykt sem sá sem ég elska finnur og hugsar fallega til mín.
Aðallega á maður samt að ganga með ilmvatn fyrir sjálfa sig. Það er alltaf skemmtilegt að setja á sig góða því lykt það getur alveg skipt um stemmingu í lífinu hvernig ilmvatn maður er með og þá komum við að því!
Gucci Flora Gardenia – Ást við fyrsta þef
Ég fann alveg svakalega góða lykt um daginn en hún er af ilmi sem heitir Flora Garedenia og kemur frá ítalska tískuhúsinu Gucci.
Hún er afskaplega kvenleg og falleg, mjög sæt en samt ekki of væmin. Svona lykt sem maður vill finna aftur og aftur. Þokkafull, seiðandi en samt ekki of dramatísk. Létt og skemmtileg.
Toppnóturnar í Flora Gardenia eru rauð ber og pera, hjartatónar hvít gardenía og flauelsjasmína en grunntónninn er Patchouli og hrásykurstónn. Útkoman er dásamleg!!!
Upprunalegi ilmurinn í þessari línu er Gucci Flora. Hún er jafn mjúk og kvenleg en með öðrum blómum og tónum. Þetta eru ólíkir ilmir en samt báðir svo klassískir og kvenlegir.
Gucci Flora línan er afskaplega fallega hönnuð. Hún er innblásin af blómum á munstri á silkiklút sem Grace Kelly valdi sér sem gjöf Frá Gucci í verslunarferð með Prinsinum af Mónakó.
Það var ekkert verið að spara við sig í lúxus þar eins og maður getur ímyndað sér og blóma mynstrið sem prýddi þennan fallega silkiklút er prentað á umbúðirnar utan um dásamlegu sexhyrndu flöskurnar.
Ég verð að segja að ég er sjúklega hrifin af þessum ilmi frá Gucci og hlakka til þegar það kemur eitthvað nýtt í Flora línunni. Ekki svo að segja að ég sé alveg búin að finna hina einu sönnu lykt, maður getur alltaf á sig blómum bætt, en í bili er ég alveg rosalega sátt. 💞 Elska þessa lykt!
[usr 5]
Þórunn Antonía Magnúsdóttir, söng og leikkona, er flestum landsmönnum kunn. Hún hefur áhuga á ótal mörgu, en þó aðallega tónlist, móðurhlutverkinu, kvenhlutverkinu, ástinni, listinni og lífinu. Hún er í farsælli sambúð og á eina dóttur.