Ég fékk þennan dásamlega ilm í hendurnar fyrir stuttu og hef varla getað fjarlægt nefið af flöskunni síðan. Ilmurinn hittir algjörlega í mitt mark, dálítið þungur og rómantískur.
Hugmyndin að baki ilminum er sótt í auðgi og dýpt fyrri ilma frá þeim Domenico Dolce og Stefano Gabbana.
Samkvæmt þeirra lýsingu á ilminum er honum ætlað að ögra og vekja athygli. Lyktin er að þeirra sögn öflug blanda fágaðra og heillandi andstæðna og einkennir hana austrænn blómailmur og djarfir eggjandi tónar.
Hlýr reykelsiskenndur tónn sandelviðar og moskutónar ásamt sætum keim skapa áhrifamikinn grunn ilmsins.
Nóg af flóknum lýsingum. Intense er mitt nýjasta uppáhald – rómantískur, þungur en samt með fersku ívafi. Umbúðirnar eru líka svo fallegar, dökk og þung flaska í flauelsumbúðum.
Ég er skotin. Mjög skotin!
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=FHisrVEQ5AM[/youtube]
Guðrún Veiga er mannfræðingur að mennt. Týpískt naut, kann vel að meta veraldleg gæði og þrjósk með eindæmum, fagurkeri og eyðslukló.
Naglalökk eru hennar helsti veikleiki og líkamsrækt stundar hún ekki en viðheldur brennslunni með óhóflegri kaffidrykkju.