Ég er afar fátækur námsmaður eins og svo margir aðrir. Ég borðaði núðlur sem kosta 39 krónur í kvöldmat og ætla að gefa faðmlög í jólagjöf.
Ég var þess vegna afskaplega sæl og glöð þegar ég fann uppskrift að einfaldri djúpnæringu á einhverju netráfi – einungis úr tveimur hráefnum sem flestir eiga í eldhússkápnum.
Djúpnæring:
- 2 matskeiðar af ólívuolíu
- 1 matskeið kókosolía.
- Þessu er hrært vel saman.
Síðan þarf bara að maka mixtúrunni vel og vandlega í hárið. Ég reyndi að forðast að smyrja þessu í hársvörðinn þar sem ég var að prófa þetta í fyrsta skipti – ég þorði ekki að taka sjénsinn á að þurfa að kljást við fitugan hársvörð langt fram á nýtt ár. Ég leyfði þessu að vera í hárinu í góða tvo tíma. Þá skolaði ég það upp úr sjóðandi heitu vatni og þvoði það svo eins og venjulega.
Hárið á mér er ótrúlega mjúkt og fínt eftir þessa meðferð. Ég mun pottþétt gera þetta oftar.
Guðrún Veiga er mannfræðingur að mennt. Týpískt naut, kann vel að meta veraldleg gæði og þrjósk með eindæmum, fagurkeri og eyðslukló.
Naglalökk eru hennar helsti veikleiki og líkamsrækt stundar hún ekki en viðheldur brennslunni með óhóflegri kaffidrykkju.