Rannveig skrifaði fyrir skemmstu um vorblómin frá Gucci en með því á ég við sumarilmina sem tískuhúsið sendi á markað í vor. Flora – Garden Collection.
Sjálf er ég mikill aðdáandi ilmanna frá Gucci og hef oft lent í því að vera spurð hvaða ilm ég noti þegar ég ber þá -enda dásamlegir. Tveir af mínum eftirlætis eru Gucci Guilty Intenese og Flora (sem kom á markaðinn fyrst fyrir þremur árum og sló rækilega í gegn) en Flora Garden Collection er byggt á Flora.
Nú hef ég notið þess að bera Glamourous Magnolia úr Garden Collection línunni í nokkrar vikur.
Þetta er einstaklega ljúfur og góður ilmur. Alls ekki frekur. Flauelsmjúkur eins og blað á blómi og þá ekki endilega magnolia heldur þægilegt ferðalag um þetta einstaka skilningarvit, lyktarskynið.
Þú merkir rós, sandalvið, musk, létta sítrónu og jafnvel súkkulaði. Hljómar sérkennilega en prófaðu næst þegar þú átt leið um snyrtivöruverslun.
Glasið er hannað í einstökum Art Deco stíl sem ber með sér mikinn glamúr. Það er svo fallegt að manni finnst það vera stáss og því er flaskan höfð á fallegum silfurbakka á snyrtiborðinu ásamt hinum fallegu glösunum.
Þetta er ilmur sem fær fólk ekki endilega til að snúa sér við á eftir þér en hann er fullkomin til hversdagsnota, mildur, kvenlegur og ljúfur og endist vel á skinninu.
Hönnunarstjóri Gucci, Frida Giannini, sagði um þennan ilm að hana langaði til að skapa hughrif sem kölluðu fram tilfinningar bjartsýni, rómantíkur og sjarma. Gott ef það tókst ekki bara ágætlega því ilmurinn er sannarlega ljúfur.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.