Snyrtivörulínan frá NIP+Fab hefur aldeilis slegið í gegn hjá minni en ég verð hrifnari af þessari vöru eftir því sem ég prófa fleiri tegundir frá henni. Þetta eru bara frábærar húðvörur.
Nýjasta varan sem ég fékk mér um daginn var krem fyrir efri hluta handleggjanna. Kremið heitir Upper arm fix og gerir það sem nafnið stendur fyrir. Það sléttir og minnkar ummál handleggja. Með daglegri notkun lofa þeir sjáanlegum muni á sex vikum.
Ef þú ert í svipuðum hugleiðingum og ég, þar að segja að reyna að fela og losna við þessa blessuðu bingóvöðva sem slappast með hverju árinu, þá er tilvalið að nota þetta krem Upper arm fix frá Nip+fab ásamt auðvitað æfingum og hollu fæði.
Nú hef ég notað kremið í nokkrar vikur og finn strax mun, húðin er þéttari og ilmar einstaklega vel eftir að ég ber kremið á mig. Það má vitanlega líka bera þetta krem á önnur svæði sem þurfa smá ‘push up’ og það er æði að bera það á sig áður en þú ferð í hlýrakjól eða einhverja flík sem sýnir handleggina.
Kremið inniheldur Blue lotus flower sem örvar blóðrásina og stinnir húðina. Amarashape sem hjálpar til við að brjóta fitufrumurnar niður og exfoliactice sem mýkir húðina og sléttir úr hrukkumyndun og slitum.
Það er auðvelt í notkun, þú einfaldlega berð það á þig eftir sturtu með hringlaga hreyfingu þar til kremið hefur náð yfir allan efri part handleggsins. Léttur grape ilmur er af kreminu sem er í senn frískandi og léttur.
Frábært krem sem vinnur á þessum leiðinda vængjum sem hafa einhvernveginn verið orðaðir við konur sem sækja bingókvöld. Lyfta upp handleggnum og hrópa BINGÓ!
Nú verður mér ekki hleypt aftur inn í Vinabæ!
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.