Frá því BB kremin komu á markað í hittifyrra og urðu vinsæl hef ég prófað nokkur þeirra en fá finnast mér toppa BB kremið frá Shiseido.
Það hylur alveg einstaklega vel og gefur áferð sem er mjög falleg og blandast eigin húðlit mjög vel. Húðin fær á sig fallegan ljóma en kremið er mjög létt á húðinni og virkar ekki eins og þykkt meik.
Stundum hef ég notað BB kremið undir farða enda helst hann talsvert betur á þar sem BB krem er í raun eins og primer líka. Það inniheldur spf upp á 35 sem kemur í veg fyrir að sólarblettir, þurrkur, hrukkur og álíka leiðindi myndist á húðinni en þetta er auðvitað nauðsynlegt hvort sem er um sumar eða vetur. Fullkomið þó ef þú ert á ferðalagi eða á sólarströnd því í raun er BB kremið litað dagkrem með sterkri sólarvörn – og auðvitað viltu vera sæt á ströndinni líka.
Eitt af því besta við þetta krem eru þó umbúðirnar. Þær láta lítið yfir sér en eru svo sérlega hentugar. Túban er úr plasti og með mjóum enda sem hægt er að nota til að setja kremið beint á húðina í andlitinu án þess að koma við á handarbakinu.
Hún passar í hvaða snyrtibuddu sem er og er létt og þægileg. Algjörlega fullkomin vara til að hafa með sér í veskinu og nota hvort sem er fyrir jógatíma, æfingu eða útihlaupin.
BB kremið frá Shiseido kemur í tveimur litum, medium og dark, og fæst í helstu snyrtivöruverslunum. Það er í dýrari kantinum enda Shiseido í lúxusflokki snyrtivara.
Ég mæli virkilega með Shiseido BB kremi fyrir allar sem eru hrifnar af BB kremum eða langar að prófa nýtt og þá sérstaklega konur sem eru 35 ára og eldri.
Þetta er vara sem meira að segja þær sem eru lítið fyrir snyrtivörur ættu að hrífast af því það gerir mikið fyrir útlitið um leið og það verndar og endist lengi yfir daginn.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.