Þessi andlitssápa kemur úr hinni sívinsælu og verðlaunuðu húðlínu Ibuki frá Shiseido.
Línan er miðuð að konum á þrítugsaldri og á að hindra öldrun húðarinnar. Ég er einmitt mjög ginkeypt fyrir öllu sem lofar að halda mér ungri. Að eilífu.
Sápan er afskaplega einföld í notkun og ofsalega drjúg.
Það þarf ekki nema einn afar lítinn dropa af henni, ásamt vatni og hún freyðir út um allt andlit. Ég hugsa að ein svona túba geti vel enst mér út árið.
Ibuki húðlínan er sögð vernda húðina fyrir skaðlegum áhrifum umhverfisins. Línan styrkir yfirborð húðarinnar og á að vernda teygjanleika hennar og kollagenmagn.
Samkvæmt lýsingum á sápunni er hún djúphreinsandi og fjarlægir öll óhreinindi af húðinni án þess að hafa áhrif á rakastig hennar. Sápan er látin freyða á andlitinu og henni nuddað vel og vandlega á með hringlaga hreyfingum. Hún er síðan fjarlægð með vatni og á að skilja húðina eftir silkimjúka og endurnærða.
Hún gerir nefnilega akkúrat það. Ég hef sjaldan verið eins dásamlega mjúk! Ef þið hittið mig á förnum vegi þá skal ég leyfa ykkur að strjúka yfir andlitið á mér. Ekkert mál.
Núna er ég alveg orðin sjúk. Mig langar í alla línuna. Ég þarf að ræða þetta mál við Lánasjóð íslenskra námsmanna, fá þau til að hækka framfærsluna mína dálítið. Varla vilja þau að ég verði gömul fyrir aldur fram.
Ég mæli með þessari andlitssápu. Bæði fyrir ykkur sjálfar nú eða í afmælis, mömmu eða bara gleðipakkann handa góðri vinkonu!
Guðrún Veiga er mannfræðingur að mennt. Týpískt naut, kann vel að meta veraldleg gæði og þrjósk með eindæmum, fagurkeri og eyðslukló.
Naglalökk eru hennar helsti veikleiki og líkamsrækt stundar hún ekki en viðheldur brennslunni með óhóflegri kaffidrykkju.