Naglalökk, ekki ólíkt ilmvötnum, bera með sér minningar fyrir mig. Litir einkenna oft upplifanir mínar og minna mig á ákveðna þætti í lífi mínu.
Rautt naglalakk minnir mig til dæmis á þegar ég var lítil og horfði á mömmu naglalakka sig, á leið í fínt boð og þurfti tímabundna aðstoð við allt því lakkið var svo lengi að þorrna.
Um daginn fékk ég í hendurnar yndislega fallegt, djúpsægrænt naglalakk frá Yves Saint Laurent og um leið og ég setti það á mig fór ég að tengja við nostalgískar hugsanir.
Fljótlega fór ég að leiða hugann að því þegar ég var sjö ára í Suður-Frakklandi ásamt foreldrum mínum. Vaðandi í sjónum í leit af skeljum og gersemum. Það er svo sannarlega aldur þegar heimurinn er spennandi staður, og þar sem ég hjóp um í öldunum horfði ég oft út á hafið og óskaði þess að koma auga á fallega hafmeyju.
Lakkið heitir Vert D’orient og er númer 36. Það þurfti einungis 2 umferðir og liturinn er mjög tær, ekki ólíkt sjónum við miðjarðarhafið. Naglalakkið er partur af sumarlínu YSL 2013 en nánar er fjallað um línuna hér.
Þó ég sé ekki í augnablikinu að láta mig fljóta í sjónum á Frönsku rivíerunni færir þetta fallega naglalakk frá YSL mig einu skrefi nær ströndinni, þó það sé bara í huganum.
Anna Margrét er fædd í Reykjavík árið 1987, en hefur alið manninn í Svíþjóð, Suður Ameríku og víðar.
Anna er krabbi, og þykja þeir hinir kátustu. Tíska, förðun, jafnrétti, skrif og ferðalög um Afríku eru nokkur af hennar áhugamálum.