Mér finnst fátt skemmtilegra en að gera mínar eigin snyrtivörur í eldhúsinu heima…
Það tekur ekki langan tíma að læra hvað er gott fyrir húðina og hvað hentar þér og það er einmitt það sem að ég hef verið að gera undanfarin ár. Ég hef lesið mér mikið til um virkni allskonar náttúrulegra efna og hvað er gott fyrir húðina mína. Einnig hef ég mikið verið að búa mér til allskyns maska, hreinsa, baðbombur, krem og næringar og ég get sagt ykkur að það virkar mjög vel.
Auðvitað á ég alltaf til andlitshreinsa og krem frá hinum og þessum merkjum enn mér líka finnst rosalega gott að búa til mínar eigin snyrtivörur reglulega og ætla ég að gefa ykkur upp fjórar af mínum uppáhalds uppskriftum af möskum og skrúbbum sem eru bæði góðir fyrir andlit og líkama.
HAFMEYJUSKRÚBBURINN
Þessi skrúbbur hentar vel bæði á andlitið og líkaman en hann er góður til að losa húðina við alls kyns óhreinindi en þari er frábær fyrir húðina, hann nærir hana mjög vel og losar húðina við alls kyns eiturefni.
- 4 msk af þurrkuðum þara
- 3 msk sykur
- 1 msk ólífuolía
- 1 msk eplasafi
- 2 msk hunang
Þarinn er mulinn vel niður og þessu öllu blandað vel saman og er þessu svo nuddað vel á húðina og látið vera í 5-10 mínútur og svo skolað af með heitu vatni. Geymist í kæli í góðum lokuðum og hreinum umbúðum í 2-3 vikur.
BLESS BLESS FÍLAPENSLAR – SKRÚBBUR
Fílapenslar geta verið rosalega leiðinlegir og hér er maski sem að ég hef reglulega notað með góðum árangri en matarsótinn losar húðina við óhreinindi og aðrar bakteríur.
- 1 msk sykur
- 1 msk matarsódi
- 1 tsk hunang
- 2 msk vatn
- 1 tsk sítróna
Þessu er blandað vel saman og nuddað á andlitið í nokkrar mínútur og svo hreinsað vel af með heitu vatni.
EXPRESSÓ SÚKKULAÐI MASKI
Kaffi er gott til að hreinsa í burtu dauðar húðfrumur og súkkulaði nærir húðina.
- 3 msk af möluðu kaffi
- 3 msk lífrænt kakóduft
- 1 1/2 msk nýmjólk
- 1 tsk sítrónusafi
- 1 tsk hunang
Þessu er öllu blandað saman og borðið á andlitið og hálsin, passið augun. Þetta er látið bíða á í 15 mínútur og svo hreinsað af með heitu vatni.
BLÁBERJAMASKI
Bláber eru stútfull af andoxunarefnum og eru frábær leið til að halda húðinni unglegri, endilega gerið þennan maska reglulega því hann er meiriháttar.
- 10 bláber (fersk eða frosin)
- 1 msk grísk jógúrt
- 1 msk sítrónusafi
Bláberin eru maukuð og því næst blandað saman við jógúrtið og safann. Eftir að húðin hefur verið hreinsuð þá er maskinn borinn á og látin bíða í 15 mínútur og síðan hreinsaður af með heitu vatni.
Eldhúsið heima hjá þér er líklega fullt af allskyns vörum sem eru góðar fyrir húðina, endilega prófaðu þig áfram því þetta er ekki bara gott fyrir húðina og umhverfið heldur er þetta líka bara svo skemmtilegt…
Bjarney Vigdís er mikil áhugamanneskja um allt sem viðkemur heilsu, uppeldi, eldamennsku, tísku, förðun, handavinnu, fegrun heimilisins og öðru pjatti. Hún er menntaður förðunarfræðingur og er jafnframt framúrskarandi húsfreyja sem heldur einnig úti sinu eigin bloggi. Hún býr á vesturlandi í litlum bæ ásamt manni sínum og 6 börnum.