Til að vita hvaða krem hentar þinni húðgerð getur verið mjög gott að fara í húðgreiningu hjá snyrtifræðingi en þær búa yfir bæði reynslu, þekkingu og fagmennsku til að greina húðina þína.
Snyrtistofan Fagra í Grindavík hefur verið dugleg að fá til sín mjög faglegan snyrtifræðing sem sérhæfir sig í húðgreiningu með sérstöku tæki. Ég ákvað að skella mér þar sem húðin mín hefur hegðað sér undarlega undanfarið og ég vildi fá að vita hvað ég gæti gert til þess að laga hana.
Ýr Björnsdóttir er snyrtifræðingur hjá ÓM heildsölu og hún sá um að greina mig og útskýra fyrir mér hvað myndirnar sem birtast á skjánum þýða ásamt því að útskýra greiningartextann sem kemur þegar greiningunni er lokið en tækinu er strokið á andlitið til þess að greina húðina djúpt og nákvæmlega.
Tækið góða kemur frá snyrtivörurisanum Sothys og það mælir teygjanleika húðarinnar, hversu þétt hún er, hversu feit hún er, hversu skemmd hún er eftir sólina og ýmislegt fleira.
Það kom mér mikið á óvart hversu nákvæmt tækið er! Ég fékk alveg að vita hvaða svæði ég þyrfti að passa uppá, bera meiri raka á og ég fékk einnig ráðleggingar um hvernig ég ætti að þrífa húðina og hvaða tegund af hreinsiefni ég ætti að nota til þess, við þolum mismunandi álag á andlitið og kornaskrúbbur hentar ekki öllum andlitsgerðum.
Ég mæli með því að þú kannir hvort að snyrtistofan þín geti fengið til sín sérfræðing í húðgreiningu því þetta er eitthvað sem allar konur þurfa á að halda, flestar snyrtistofur bjóða upp á þessa greiningu frítt fyrir sína viðskiptavini.
Rannveig er útskrifuð sem hársnyrtir en leggur nú stund á nám í fjölmiðlafræði. Henni finnst fátt skemmtilegta en að stunda margskonar líkamsrækt og er ekki hrædd við það að prófa nýjungar í þeim efnum, Rannveig er þessi týpíska meyja sem verður að hafa allt tip top, ofur pjöttuð að mati margra en lætur sér fátt um það finnast. Hún á tvo stráka og er harðgift.
Fylgdu Rannveigu á Instagram rannveigjonina og á Twitter @MissisRannveig