Tær, við erum flest með svoleiðis. Þær hjálpa okkur að standa upprétt, ganga og halda jafnvægi og eru eðlilegur partur af mannslíkamanum. Í mínu starfi hef ég samt tekið eftir því að þó nokkrir eru haldnir tá-spéhræðslu.
“Þú verður að fyrirgefa þessar ljótu tær,” sagði kona ein við mig í fótsnyrtingu um daginn.
Hún var ekki sú fyrsta sem tekur svona til orða en ég sagði henni að það væri ekkert að fyrirgefa. Ég bætti því jafnframt við, sem rétt er, að hún væri með fínustu tær og að ég hefði aldrei fengið manneskju í fótsnyrtingu með fætur sem litu út fyrir að vera “photoshop-aðar”.
Ég hef raunar aldrei fengið manneskju í handsnyrtingu, andlitsbað, vaxmeðferð, litun, nudd eða neina aðra snyrtistofumeðferð sem hefur litið út eins og bleksprautuð glanstímaritsgella.
Við erum nefnilega öll með s.s. eitt húðslit, háræðaslit, inngróna nögl, slitin naglbönd, líkamshár, ör, litabreytingar og húðholur. Sem segir okkur bara það að við erum lifandi manneskjur en ekki “myndkaup” auglýsingar og það þarf ekkert að fyrirgefa það.
Það að fólk sé spéhræddara með tærnar á sér en aðra líkamsparta gæti hugsanlega verið sprottið af því að þær eru álíka lítið sýnilegar og kynfærin. Að sólarströndum og sundstöðum undanskildum. Ég vil því hvetja fólk sem haldið fyrrnefndri tá-spéhræðslu að sækja sundstaðina grimmt og komast að því, sem snyrtifræðingurinn veit, að tær eru bara tær og ekki nokkur lifandi manneskja er með þær photoshop-aðar.
Ég er annars bara skruggu glöð með mínar tær, þær koma mér út að hlaupa eftir erilsaman vinnudag. Hvað um þínar tær, eru þær ekki bara fínar?
Brynhildur Stefánsdóttir er bóndakona í bogmannsmerkinu og starfandi snyrtifræðingur á snyrtistofunni Dekur Akranesi. Hún eignaðist þrjú börn á fjórum árum, fór svo í Snyrtiakademíuna og útskrifaðist (dúx) vorið 2012. Hún er fædd í desember 1977 á Akranesi en hefur búið í Reykjavík og Manchester. Flutti fyrir 10 árum út í sveit á kúabúið Ytra Hólm og líður vel í druslugallanum innan um matjurtirnar en einnig uppstríluð í múg og margmenni. Lífsmottó: The best is yet to come