Augabrúnir og hárvöxtur reyndar allur er háður genum og androgenflæði. Með aldrinum breytist hormónaflæði okkar og á gelgjuskeiði lífsins fáum við, mörg hver, okkar búsnustu augabrúnir.
Oftar en ekki vilja stúlkur og jafnvel drengir bregðast við þessari háraukningu. Þá eru hér nokkrir punktar sem vert er að hafa í huga.
Augabrúnatíska er breytileg og algjör óþarfi að eltast við tísku í þeim efnum. Við erum öll ólík að upplagi og oftast fer okkur best að vera eins og guð gerði okkur en vissulega má snyrta og skerpa ögn á augabrúnum.
Vaxtarstig augabrúna
Það eru þrjú vaxtarstig hárs; anagen telogen og catagen. Ef hár er fjarlægt á anagenstigi, fylgir oft hársekkurinn með og þá vex hárið ekki aftur. Að þessu gefnu ætti maður ekki að plokka hár inn í augabrún, jafnvel þó það sé grátt, því það gæti myndað varanlegt skarð. Augabrún sem hefur verið plokkuð of mikið, of lengi, er því ekki líkleg til að ná aftur fyrra horfi.
Litur augabrúna
Fæst fólk er með svartar og kassalaga augabrúnir frá náttúrunnar hendi og virka svoleiðis augabrúnir því mjög gerfilegar. Hópur snyrtifræðinema frá Írlandi, sem heimsóttu Ísland árið 2012, spurðu stallsystur sínar hvernig stæði á því að hér væru “allar” konur með svartar augabrúnir?
Vaxið sem notað er á brúnirnar
Undirstöðuefnin í öllu vaxi sem notað er á snyrtistofum eru býflugnavax og trjákvoða. Hafirðu ofnæmi fyrir öðru hvoru efninu ættirðu að biðja um plokkun en ekki vax. Plokkun er einnig ákjósanlegri kostur ef þú ert með viðkvæma húð eða notar húðþynnandi lyf. Faglegur snyrtifræðingur er fullfær um framkvæmd á hvoru tveggja.
Mótun
Ég ráðlegg engum að fjarlæga hár fyrir ofan augabrún, hvorki með vaxi né plokkun. Þunn vellushár þekja andlit okkar og þessi hár geta örvast og orðið grófari við áreitið, þar með erum við komin í vítahring. Hægt er að stórskemma ásjónu brúnarinnar með þessum hætti, hárin fyrir ofan brúnina eru stuðningur við fallega brún frá náttúrunnar hendi.
Hægt er að klippa grá og gróf hár sem teygja sig út fyrir augabrúnina. Ekki plokka þau.
Hármissir og efni sem styrkja hárvöxt
Barnshafandi konur og konur með börn á brjósti upplifa oft mikinn hármissi. Þetta á líka við um augnhárin og hárin í augabrúninni. Þetta lagast yfirleitt þegar jafnvægi kemst á hormónaflæðið. Þó er hægt að styrkja húð, hár og neglur með e- vítamíni og magnesíum í ráðlögðu magni og einnig halda fólinsýru og járnbúskap í lagi.
Að lokum, förðunarfræðingar mega ekki starfa við varanlega litun og plokkun augabrúna. Förðunarfræðingur er ekki snyrtifræðingur. Það sem aðgreinir þessar tvær starfsgreinar er þriggja mánaða nám förðunarfræðings og þriggja ára nám snyrtifræðings, sem felur í sér talsvert meiri fjölbreytni en einungis förðun.
Snyrtifræði er lögverndað starfsheiti sem krefst sveinsprófs í snyrtifræði. En þetta vissu auðvitað allir.
Brynhildur Stefánsdóttir er bóndakona í bogmannsmerkinu og starfandi snyrtifræðingur á snyrtistofunni Dekur Akranesi. Hún eignaðist þrjú börn á fjórum árum, fór svo í Snyrtiakademíuna og útskrifaðist (dúx) vorið 2012. Hún er fædd í desember 1977 á Akranesi en hefur búið í Reykjavík og Manchester. Flutti fyrir 10 árum út í sveit á kúabúið Ytra Hólm og líður vel í druslugallanum innan um matjurtirnar en einnig uppstríluð í múg og margmenni. Lífsmottó: The best is yet to come