„…byrjunin á enn lengra, bjartara, erótískara og ævintýralegra ferðalagi.“
Snorri Ásmundsson listamaður er mörgum kunnur en hann hefur meðal annars boðið sig fram sem forseta, valdið usla í kirkju og selt aflátsbréf svo eitthvað sé nefnt.
Snorri er um þessar mundir með andlegu hliðina gersamlega í botni þar sem hinn mikli gúrú, Master Hilarion, líkamnast reglulega í Snorra til að boða réttar jógaáherslur, gleði og almennan léttleika. Master Hilarion er upphafsvera (varla maður) jógategundar sem kallast Sana Ba Lana og Snorri hefur nú fengið þá köllun að kenna þessa leið.
Ég hitti Snorra baksviðs í Egilshöll þar sem hann var nýlega með stóra samkomu og forvitnaðist um hvað gengi nú á í lífi og líkama listamannsins.
„Sana Ba Lana er ný tegund af Jóga og þýðingin úr orðunum er heilbrigð mjúk sál í fallegum líkama. Sana þýðir heilbrigði og Ba þýðir sál eða guð á forn egypsku og Lana þýðir mýkt,“ útskýrir Snorri væminn á svip.
„Master Hilarion er fæddur í Palestínu og bjó og starfaði á Atlantis en komst undan áður en borgin sökk. Hann endurholdgaðist seinna í Páli póstula og líkamnast reglulega í mér þegar hann þarf. Samband okkar hefur þróast og þroskast með árunum en hann hefur verið verndarengill minn lengi.“
Jafningi Jesú frá Nazaret
Snorri segir að meistarinn leggi áherslu á að við lifum í leik og gleði og tökum hlutunum ekki of hátíðlega. Hann segir að jógaiðkun fólks hafi stundum farið út í líkamsdýrkun en Master Hilarion vilji benda á og kenna að jóga leikfimi sé fyrst og fremst forleikur að hugleiðslu sem tengi okkur við algeimsvitundina.
„Master Hilarion er fyrst og fremst heilari sem tengir saman vísindi við andlega heima og undirbýr fólk fyrir fimmtu víddina sem er að opnast um þessar mundir. Hann er jafningi Jesú frá Nazaret og þótt hann sé ekki eins þekktur hefur hann haft meiri áhrif á mannsandann en fólk gerir sér grein fyrir,“ segir Snorri ábúðarfullur og bætir við að hann sé fullur bæði auðmýktar og þakklætis fyrir að fá að gefa meistaranum kost á að nota fallegan líkama sinn til að holdgast í.
Námið kostar fimm milljónir
Snorri segir að Sana Ba Lana jógakennaranám sem hann kennir fari fram i gegn um telepathy eða hugsanaflutning sem gerist þegar nemandi tengist Master Hilarion og fyrir þetta greiði nemandinn fimm milljónir íslenskra króna sem honum finnst ekki hátt verð miðað við hvað hægt er að fá út úr þessu.
„Innifalið í því er tenging við Master Hilarion 24 tíma sólarhrings auk fríðinda sem fylgja því að vera Sana Ba Lana jógakennari og bera þann titil.“
Snorri er þekktur fyrir portret myndir af frægu fólki.
Hreinsast heima í stofu
Þið sem ekki hafið efni á þessu fimm milljón króna námi eða jógatímum getið þó andað með nefinu því master Hilarion er að nota Snorra til að setja upp YouTube rás í þeim tilgangi að auka áhuga á Sana Ba Lana jóga.
„Hann vill gefa almenningi tækifæri til að komast í jógatíma og hreinsast og verða jafnvel fyrir andlegum reynslum og vakningum heima í stofu,“ segir Snorri spenntur og bætir að lokum við að hann sé fyrst og fremst að höfða til þeirra sem eru klár í að opna sig fyrir fimmtu víddinni:
„Það er bara byrjunin á enn lengra, bjartara, erótískara og ævintýralegra ferðalagi.“
Hér má sjá svipmyndir frá athöfninni í Egilshöll:
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.