Heimili okkar er staður sem við viljum trúa að við séum örugg á. Staður sem við viljum geta spígsporað um fáklædd, sagt okkar skoðanir óheflað, hent fram aulabrandara, sungið í sturtu og jafnvel pissað stöku sinnum með opna hurð.
Fyrir tíma snjallsímans var nefnilega til nokkuð sem kallaðist friðhelgi einkalífsins.
Ég hef stundum sagt að ég sé mjög heppin að netvæðingin var ekki algjör þegar ég var unglingur. Sennilega væri mannorð mitt löngu dáið og grafið, ef ég í allri minni hvatvísu dýrð hefði sextán ára mátt þola netbirtingar, snapp og snjallsímanjósnir.
Raunin er samt sú að ég er ekki dauð og þrátt fyrir dvínandi hvatvísi og færri uppátæki með aldri og þroska er ég hvergi hólpin. Það sem ég segi og geri dag hvern er nefnilega allt eins víst að tekið verði úr samhengi og því hent á netið í fíflagangi og ósnertanleik hins tölvuvædda nútíma.
Máli mínu til stuðnings vil ég fyrst benda á öll skiltin sem hanga uppi af illri nauðsyn í búningsherbergjum sundstaða og líkamsrætarstöðva. Á þeim stendur. Notkun farsíma bönnuð.
Máli mínu til ennþá frekar stuðnings vil ég segja ykkur tvær stuttar en sannar sögur.
Saga eitt: Kunningjakona mín sem vinnur með fólk er dag einn í vinnu sinni. Hún gerir allt eins og hún á að gera og svo sem ekkert merkilegt við það. Það var þó öllu merkilegra að daginn eftir tók hún eftir því að myndskeið af henni, að sinna skjólstæðingi hafði verið sett á Facebook. Myndskeiðið hafði skjólstæðingurinn tekið upp sjálfur og án leyfis á snjallsímann sinn.
Saga tvö: Vinkona mín, sem á ungling, kemur heim til sín. Unglingurinn er hress og aðeins stíga á stélið á móður sinni sem verður til þess að hún svarar honum fullum hálsi. Þegar hún hefur svarað gengur hún fram á fjóra vini unglingsins sem allir eru búnir að taka upp það sem hún sagði í samhengislaust snap og senda í hláturskasti út í kosmósinn.
Lúxusvandamál eða snjallvandamál? Ég veit ekki með ykkur en ég er hætt að syngja í sturtu.
Brynhildur Stefánsdóttir er bóndakona í bogmannsmerkinu og starfandi snyrtifræðingur á snyrtistofunni Dekur Akranesi. Hún eignaðist þrjú börn á fjórum árum, fór svo í Snyrtiakademíuna og útskrifaðist (dúx) vorið 2012. Hún er fædd í desember 1977 á Akranesi en hefur búið í Reykjavík og Manchester. Flutti fyrir 10 árum út í sveit á kúabúið Ytra Hólm og líður vel í druslugallanum innan um matjurtirnar en einnig uppstríluð í múg og margmenni. Lífsmottó: The best is yet to come