Sex and the city eru dásamlegir þættir um líf fjögurra kvenna sem búa í New York borg
… en þeim þykir fátt skemmtilegra en að drekka kokteila í hádeginu, versla rándýra skó og hittast á kvöldin í designer fötunum sínum og fjalla um karlmenn og kynlíf.
Ég hef fylgst með S&C frá upphafi. Þá var ég nú bara smástelpa og mátti ekki horfa á þá en stalst alltaf til þess.
Það sem heillaði mig voru öll fallegu fötin og skórnir, glamúrinn. Carrie var mín uppáhalds. Hún átti flottustu fötin og var svo svöl -alltaf með sígarettu og cosmopolitan í flottu skónum sínum og sat ein í myrkrinu í að skrifa dálkinn á kvöldin.
Karakterarnir í þáttunum eru allar mjög ólíkar:
Samantha fer alltaf aðeins yfir strikið, klæðist of djörfum og litríkum fötum, blótar aðeins of mikið og sefur hjá aaaðeins of mörgum karlmönnum.
Charlotte er litla sæta fullkomna tepran, kyssir aldrei karlmann fyrr en á öðru eða þriðja deiti, klæðist fáguðum fötum, blótar aldrei og heldur alltaf í vonina um prinsinn á hvíta hestinum.
Miranda er sterkur og sjálfstæður lögfræðingur sem klæðist flottum og dýrum drögtum sem fara vel við fallega rauða hárið.
Carrie er blaðamaður sem skrifar um kynlíf, er með stelpulegan fatasmekk og gengur í raun í hverju sem er. Hennar helsta fíkn eru fallegir skór og mikið af þeim!
Hönnuðurinn á bak við persónulegan stíl fjórmenninganna (og allra sem koma fram í þáttunum t.d. Stanford sem oft sást í æðislegum jakkafötum) er engin önnur en hin skær-rauðhærða Patricia Field.
Patricia er þekkt fyrir að vera með einstaklega gott auga fyrir fallegum flíkum og að geta búið til rosalega skemmtileg ‘lúkk’. Hún blandar saman litum og formum, vintage fötum og rándýrum designer fötum ásamt MIKIÐ af skarti. Patricia er einn af mínum uppáhalds stílistum.
Þú getur skoðað www.patriciafield.com þar sem hún selur fullt af flottum og sérstökum fötum, skarti, töskum, skóm og ýmislegu öðru. Verðin er mishá, en það er oft hægt að finna eitthvað flott á viðráðanlegu verði. Mér finnst skartið hennar æði.
Og eins og sönnu tískunördi sæmir bíð ég spennt eftir Sex and the city tvö! Það verður gaman að sjá hvað Patriciu dettur í hug í næstu mynd.
Stella Björt útskrifaðist úr Borgó 2010 og starfar nú sem verslunarstjóri í Topshop í Smáralind. Þess á milli tekur hún að sér stílistaverkefni og hefur tekið námskeið í stíliseringu í London College of Fashion en stefnir á fullt nám þar í framtíðinni. Stella er tvíburi.