Þau sem hafa búið í stórborgum um lengri eða skemmri tíma vita að þar er fermetraverðið dýrt.
Þá gildir einu hvort það er London, París, New York eða Róm – fermetraverð á leigu- og íbúðarhúsnæði er fokdýrt og þess vegna býr fólk þröngt, enda hafa fáir efni á stóru húsnæði.
Ég átti einu sinni heima í litlu og fallega búrgúndírauðu 16 fm herbergi með baðherbergi og eldhúsi í hjarta Parísar og því þykist ég vita sitthvað um agnarsmá rými þar sem hver sentimeter er nýttur.
Eldhúsið mitt var falið inni í skáp, fötin geymd á bak við spegil á baðinu og ísskápurinn – ha, já hann var um leið náttborð til að spara plássið. Rúmið var síðan ekki bara rúm heldur líka fatakoffort en á því svaf ég vært þau fáu kvöld sem ég var ekki úti að skemmta mér.
Ætli lífsstíllinn verði ekki annar hjá þeim sem býr í 16 fm en hjá hinum sem á stærra heimili? Hjá mér voru til dæmis engin villt partí og engin matarboð fyrir hundrað manns en á móti komu ótal draumar um slíkar veislur.
Eflaust dreymir alla borgarbúa það sama.. og nú geta þeir látið draumana rætast því ítalskt hönnunarfyrirtæki hefur markaðssett frábæra línu húsgagna sem ætluð eru borgarbúum sem búa þröngt.
Þetta er snilldarfyrirtæki og lausnirnar sem þeir bjóða á samanþjöppuðum húsgögnum eru í einu orði sagt kraftaverk.
Með þessum húsgögnum má breyta 16 fm í sannkallaða höll og halda í henni matarboð fyrir fleiri fleiri manns án nokkurra vandræða:
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.