Staður: RUB 23 Reykjavík
Verð: Sanngjarnt
Þjónusta: Sæmileg
Umhverfi: Kósý, smekklegt en töluverður kliður
Fyrir margt löngu plönuðum við vinkonurnar að fara út að borða og eiga góða kvöldstund. Tvær af okkur höfðum farið á RUB 23 á Akureyri og verið mjög hrifnar og okkur langaði þvi að kíkja á nýja staðinn í Reykjavík. Við pöntuðum borð með góðum fyrirvara og hlökkuðum mikið til.
Þegar við mættum var tekið vel á móti okkur, við fengum vel staðsett borð við miðju staðarins og pantanir gengu vel fyrir sig. Reyndar kom ein okkar seint og það var erfiðara fyrir hana að ná sambandi við þjónana sem voru uppteknir við að þjóna stórum hóp af erlendum ferðamönnum og hún þurfti líka að bíða mun lengur en við eftir matnum sínum.
Sushi og majónes
Við pöntuðum okkur allar sushi, ég fékk mér Crazy Cream Pepper rúllu með lax, rækju, pipar-rjómaost, tómati og kóríander og Spicy Tuna með túnfisk, agúrku, vorlauk og mangó-chillisósu. Mér fannst þetta mjög ferskt og gott enda er ég mikið fyrir sterkt. Ég smakkaði líka Sushi-pizzuna frægu sem er með djúpsteiktum botni, bleikju, soya-chillisósu og vorlauk og majónesi yfir, mér fannst hún góð fyrir utan majónesið og reyndar var líka búið að setja majónes á rúllurnar mínar og við vinkonurnar vorum allar sammála um að okkur fyndist það aðeins of mikið.
Þrátt fyrir að vera vel södd eftir þessa máltíð þá stóðst ég ekki freistinguna að fá mér eftirrétt og valdi mér Ís og sorbet með ferskum berjum, nutella og marengs, þetta var ekkert annað en guðdómlegt, algjörlega fullkominn eftirréttur sem ég skolaði niður með Cappuchino.
Ferðamenn í stuði
Reyndar kom kaffið töluvert seinna til borðsins en eftirrétturinn og vinkonur mínar voru næstum búnar að gefast upp og fara vegna þess að nokkrir úr hópnum sem staddur var þarna ákváðu að standa upp á stól og syngja spænsk ættjarðarlög. Það fór ekki vel í okkur, en lætin frá þeim og kliðurinn varð til þess að við gátum ekki talað saman og við ákváðum að fara annað í drykk og spjall. Ég vil þó ekki dæma staðinn út frá þessu enda tilfallandi hópur ferðamanna.
Niðurstaða
Okkur þótti maturinn mjög góður (fyrir utan majónesið) verðið sanngjarnt og þjónustan góð þangað til að athygli allra þjóna á staðnum beindist að stóra hópnum. Ef ekki væri fyrir hópinn þá hefði þessi kvöldstund eflaust verið betri með tilliti til matar og þjónustu.
Eigendur RUB 23 mættu hafa í huga að minnka kliðinn með plöntum eða öðru og spara líka majónesið en ég mun pottþétt leggja leið mína þangað aftur enda forfallinn sushi- og súkkulaðifíkill sem get ekki hætt að hugsa um Crazy Cream Pepper rúlluna og eftirréttinn himneska!
RUB 23 fær 3,5 stjörnur af 5 mögulegum.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.