ÚTLIT: Smart í sumarfríinu

ÚTLIT: Smart í sumarfríinu

Nú hefur kreppan sett mark sitt á allt þ.á. m hvernig við eyðum sumarffríinu. Fáir hafa efni á flottum utanlandsferðum og þá kannski sérstaklega fjölskyldufólk sem kýs að ferðast frekar innanlands í sumar.

Þetta er ekki mikil breyting fyrir mig sem hef ferðast innanlands með minni fjölskyldu síðustu þrjú ár og finnst það alltaf jafn yndislegt.

En þó ég sé í fríi og að slappa af þá tek ég mér ekki frí frá pjattinu. Ég er alltaf pjattrófa þó ég gangi í útivistarvænni fötum og sé ekki uppstríluð þá finnst mér nauðsynlegt að líta líka þokkalega út í fríinu.

Hver kannast ekki við að barma sér yfir sumarfrísmyndunum af sjálfum sér og ekki vilja setja þær í albúm því maður var svo sjúskaður, með úfið hár í ljótum jogging-galla og gúmmítúttum…?

En hvernig er ég sæt í fríinu mínu?

Undirbúningurinn fyrir fríið felur í sér að plokka og lita augabrúnir og augnhár, vaxa leggi og bera á mig „létt“ brúnkukrem. Snyrtirútínan í fríinu er svo sú sama og venjulega:

Hreinsimjólk og gott andlitskrem og ég nota alltaf litað dagkrem með sólarvörn og sólarpúður. Vatnsheldur maskari fær líka að fljóta með í buddunni þó ég noti hann ekki daglega. Hárblásarar og sléttujárn fá frí þegar ég ferðast um landið og ég leyfi náttúrulegum liðum að njóta sín og ber hár-sólarvörn í endana.

Ég reyni svo að klæða mig þokkalega smart þó ég sé í útivistarfötum og að hanga í víðum ljótum „kósý“-fötum í sumarbústaðnum finnst mér ekkert kósý.

Ég er kannski ferlega „gamaldags“ og margir ósammála mér en ég er sammála slagorði þessarrar síðu að „aðlaðandi er konan ánægð“ og ég reyni að vera það líka í fríinu. Ekki fyrir kallinn minn, sem finnst ég hvort eð er alltaf sæt, heldur fyrir sjálfa mig sem vil ekki láta mér bregða þegar ég lít í spegil eða á sumarfríismyndirnar.

Share on facebook
Deila á Facebook
Share on twitter
Deila á Twitter
Share on pinterest
Deila á Pinterest