Þegar ég var í Los Angeles fyrir nokkrum árum tók ég sérstaklega vel eftir því að “Beint frá bónda” var alveg það allra vinsælasta á veitingahúsunum.
Núna, um það bil fimm árum síðar, eru Hollywood búar gengnir svo langt að þeir eru margir farnir að stinga upp beð í görðum sínum í Beverly Hills og sumir eru komnir með geitur og hænur! Allt til að vita hvaðan maturinn kemur nákvæmlega.
Þetta – að sækja ekki vatnið yfir lækinn og leita ekki langt yfir skammt, hefur fengið nafn og nafnið er SLOW FOOD.
Í kringum þetta er heil hreyfing og óhætt er að fullyrða að þessi stefna sé með því heitasta sem er að gerast í matargerðarheiminum í dag.
Til dæmis byggir besti veitingastaður í Evrópu, Noma, að hluta til á Slow Food matargerð og ekki mjög líklegt að kengúrusteik eða strútsegg séu þar í boði, enda hvorki kengúrur né strútar á vappinu í Kaupmannahöfn.
Hér á Íslandi er það matreiðslumaðurinn Friðrik Valur sem er þekktastur fyrir sína hæfni á þessu sviði en hann rak til góðs tíma veitingastaðinn Friðrik fimmta á Akureyri og seldi jafnframt mat úr héraði (eða slow food) í lítilli sérverslun við staðinn.
Ef þú sjálf týnir bláber og krækiber á haustin, setur niður kartöflur og matjurtir, eða sækir jólasteikina í sveitina til ömmubróður þíns þá ert þú ómeðvitaður þáttakandi í Slow Food hreyfingunni.
Ísland er í raun algjört forréttindafyrirbæri þegar kemur enda rekjum við flest ættir okkar til manna og kvenna sem sóttu fæðu sína til sjávar eða sveita. Fólk sem vissi ekki einu sinni hvað banani var fyrr en upp úr 1960. Og við erum meira að segja enn að læra á “útlenskan” mat eins og t.d. ýmsa ávexti. Maturinn sem við borðum er að stórum hluta lífrænn enda allt öðruvísi komið að framleiðslu matvæla hérlendis í samanburði við t.d. Asíu eða Bandaríkin.
Matarkista landsins okkar er auðug og oft á tíðum er hún öllum opin. Þetta má telja til forréttinda okkar sérstöku þjóðar og við ættum að fagna því að búa í Slow Food paradís norðursins.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.