Hér á Íslandi eru margir góðir hönnuðir sem hanna dásamlegar vörur en einn af þessum hönnuðum er Greta Engilberts.
Ég skellti mér í heimsókn til Grétu og tók smá viðtal við hana en hún, ásamt manni sínum, hannar fallegar vörur með áprentuðum verkum Jóns Engilberts listmálara.
Hverjir standa að baki Engilberts-hönnun?
Það eru við maðurinn minn, Hjörtur Sólrúnarson sem rekum fyrirtækið.
Ég er eigandi fyrirtækisins en við komum bæði að hönnuninni. Við erum bæði mjög skapandi einstaklingar og þetta liggur mjög vel við hjá okkur að vinna svona saman.
Mig hafði lengi langað til þess að gera eitthvað þessu tengdu og þegar við kynntumst þá fundum við að við höfum sama áhuga á að gera eitthvað skapandi svo hugmyndirnar komu mjög fljótlega.
Nú eru þið hjónin mjög listræn og skapandi. En þið eruð líka í öðrum störfum. Hvað eru þið að gera þegar þið eruð ekki að hanna nýja hluti?
Ég vinn hjá 365 miðlum sem förðunarfræðingur og hef verið þar síðastliðin 15 ár. Hjörtur vinnur eingöngu fyrir fyrirtækið, enda í nógu að snúast bæði í að láta framleiða vörurnar, sjá um heimasíðuna og netverslunina.
Hvernig vörur hannið þið?
Við erum aðallega í fatnaði. Núna erum við komin með afskaplega fallegar slæður með áprentuðum listaverkum eftir Jón Engilberts en við erum einnig með púðaver, buff og fiber klúta. Við vorum að láta sauma fyrir okkur Kimonoa úr silki sem komu nýlega á markað í takmörkuðu magni. Við byrjuðum á því að hanna og framleiða bekki og kolla úr íslenskum efnivið, íslenskar geitastökur og við úr Hallormsstaðarskógi en fórum svo að huga meira að fatnaðinum sem við leggjum aðaláherslu á núna.
Hvernig myndir þú lýsa hönnun ykkar?
Ég mundi segja að hún sé í senn klassísk og nútímaleg. Við tvinnum saman klassíska list Jóns Engilberts við flotta og töff hönnun sem á að standast tímans tönn. Markmiðið er að hægt sé klæðast flíkunum ár eftir ár, þess vegna eftir 50 ár eða meira.
Jón Engilberts listamaður er einn af okkar klassísku íslensku listamönnum, viltu segja okkur aðeins frá honum
Jón Engilberts fékk þessa listrænu hæfileika í vöggugjöf og byrjaði mjög snemma að teikna á hvað sem að höndum bar t.d. pappír utan af brauðum og aftan á verkefnablöð vina sinna.
Svo kom að því að hann vildi fara og læra meira og fór þá í myndlistaskóla í Kaupmannahöfn og var þar í nokkur ár. Hann fór víða til að kynna sér listamenn og fá frá þeim innblástur. Hann kynntist ástinni í Danmörku og ætlaði að setjast þar að en þau hjónin Jón og Tove komu hingað til lands í seinni heimstyrjöldinni. Þau ætluðu sér að fara aftur út eftir stríð en nokkurra hluta vegna dvöldu þau hér og byggðu sér hús á Flókagötunni sem þau nefndu Englaborg en þar ólst ég upp með þeim og mömmu minni Birgittu Engilberts. Jón var einstaklega fjölhæfur listamaður og málaði alltaf mikið til síðasta dags. Hann var líka einn af frumkvöðlunum hér með grafíska list og það eru til fjölmörg grafísk verk eftir hann og á ég einmitt öll verkin sem og öll verkfæri og risturnar sem hann skar út.
Þú ert með vinnustofuna þína heima, hvernig er það?
Það hefur sína kosti og galla. Það er að vissu leiti þægilegt að geta farið inn í stofu og sinnt vinnunni eftir morgunkaffið. Gallinn er kannski að maður er heima hjá sér og því auðvelt að láta daglegt heimilisamstur trufla sig. En þetta hefur gengið mjög vel hingað til, við verðum svo bara að sjá til þegar fyrirtækið fer að stækka og blómstra.
Áttu þér uppáhalds hönnuð eða listamann?
Það þarf nú ekki að nefna að hann afi minn er uppáhalds listamaðurinn minn. Ísland hefur ekki átt annan eins listamann að mínu mati. Ég á mér ekki endilega uppáhalds hönnuð en ég fíla rokkaða hönnun, svolítið röff og töff fatnað.
Þið hafið hannað alveg æðislega línu fyrir heimilið úr geitaskinni og viðardrumbum. Eru þið með fleiri hluti fyrir heimilið?
Við erum með púða sem eru með afskaplega fallegum verkum eftir Jón. Mikil rómantík og ást í þeim, enda vil ég meina að Jón hafi verið rómantískasti málari sem íslendingar hafa átt. Hann var líka mikill rómantíker í einkalífinu og það skilaði sér í verkunum hans. En við erum líka með nokkrar hugmyndir sem bíða betri tíma.
Hvaðan sækir þú innblástur í hönnun þína?
Ég er svolítill rokkari í mér í fatastíl og mig langar að hanna föt í þeim stíl. Þau föt sem ég hef keypt eru innblástur fyrir mig án þess að benda svo sem á einhvern ákveðinn fatahönnuð. Svo er Jón Engilberts aðal innblásturinn með þessum frábæru tímalausu verkum sem hann skilur eftir sig.
Seljið þið hönnun ykkar úr landi ásamt því að selja hana hér á Íslandi?
Eins og er erum við að selja vörurnar okkar hér heima en við stefnum að sjálfsögðu á að koma þeim til annara landa og hugsum kannski fyrst til hinna norðurandana. Svo er bara að bíða og sjá hvað gerist. Við tökum eitt skref í einu hvað það varðar.
Að lokum – fyrir okkur sem elskum slæðurnar og buffin ykkar, er von á fleiri vörum í fatalínunni á næstunni?
Við erum nú þegar búin að bæta við Kimono úr silki. Afskaplega falleg flík. Svo að sjálfsögðu erum við með hugmyndir sem við erum að vinna að. Okkur langar að vinna meira með geitastökurnar og erum að þróa spennandi vörur úr því.
Um leið og ég þakka Gretu fyrir spjallið þá vil ég benda á facebook síðu Engilberts-hönnun og heimasíðu/netverslun þeirra hér.
Einnig verða þau hjónin með opið hús á Fjarðarási 19 næstkomandi laugardag 20.desember frá kl. 14-18 þar munu þau bjóða fólki 20% afslátt af vörum sínum ásamt einhverju góðgæti fyrir kroppinn. Mæli ég eindregið með því að kíkja til þeirra og gera góð kaup fyrir jólin, hitta þau og sjá fallega heimili þeirra sem er stútfullt af fallegum málverkum, húsgögnum og öðrum skrautmunum. Sjón er sögu ríkari!
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.