Stórskemmtilegur flóamarkaður á sunnudaginn
Eðalbúllan Bakkus verður með skemmtilega tilbreytingu næstu helgi þegar nokkrar smekklegar skvísur halda skrautlegan markað sem hefst á sunnudaginn klukkan þrjú. Það eru þær Valdís Thor, Ingunn Hreinberg, Harpa Dögg Árnadóttir, Harpa Rún Ólafsdóttir og Bergþóra Snæbjörnsdóttir sem tæma fataskápa sína ( og jafnvel kærastanna sinna líka) og selja á markaðnum. Auk þess verður ýmiskonar framandi glingur og fínerí á boðstólum frá ýmsum hornum veraldar, meðal annars frá Rússlandi þar sem Ingunn hefur dvalist.
” Við eigum allar stóra fataskápa fulla af skemmtilegum fötum og ætlum að losa aðeins úr þeim,” útskýrir Ingunn. “Það verður mikið um kjóla og ýmisleg önnur föt og svo verðum við einnig með körfur þar sem allt í þeim er á sama verði ( húfur, sjöl og þvíumlíkt). Auk þess verður eitthvað glingur, skart og skran og svo verð ég sjálf með rússnesk áróðursplaggöt sem fara vel í hvaða betri stofu sem er .”
Rúsínan í pylsuendanum er svo að fagurkerinn Sævar Markús mun þeyta skífum allan liðlangan eftirmiðdaginn og má því búast við unaðsfögrum tónum í anda sjöunda áratugarins á sunnudaginn.
Bakkus er við Tryggvagötu 22.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.