Ég hef ekki alltaf verið eins skipulögð og ég er í dag. Ég er með stóra fjölskyldu sem kallar á mikið skipulag og eftir að ég fór að skipuleggja mig og allt í kringum mig þá leið mér svo mikið betur því allt gekk betur fyrir sig.
Hér eru 10 frábær ráð sem hjálpa þér að skipuleggja þig og minnka alla aukavinnu á heimilinu.
1. Gerðu allt klárt kvöldið áður.
Að gera allt klárt fyrir morgundaginn áður en þú ferð að sofa minnkar stressið sem myndast stundum á morgnana og þá sérstaklega fyrir börnin. Ég tek t.d. fötin til á börnin mín áður en ég fer að sofa svo að þau geti klætt sig í rólegheitum næsta morgun. Ég hef líka til skólatöskuna, íþróttadót, föt á mig og eldhúsborðið fyrir morgunmatinn til að spara mér tíma, enda er auðveldlega hægt að gleyma hlutum snemma í morgunsárið.
2. Skrifaðu það niður.
Vertu með litla bók, blað upp á ísskáp, skipulagstöflu eða notaðu bara símann þinn til að skrifa það sem þú þarft að gera um leið og þér dettur það í hug. Mér finnst rosalega gott að skrifa það sem ég þarf að gera niður á blað og strika svo yfir þegar ég er búin að því. Með því að skrifa niður það sem þú þarft að gera eru meiri líkur á að þú munir eftir því.
3. Farðu rólega í hlutina, þá eru meiri líkur á að þú klárir þá.
Hver kannast ekki við að vera að flytja eða taka nokkra kassa úr geymslu og vera svo spennt að opna alla kassana í einu, róta aðeins í þeim og enda svo á því að vera með kassa út um allt herbergi, allt í rugli og vera svo nokkra daga að ganga frá þeim? Það er nefnilega þannig að fæstir hafa nokkra kukkutíma í einu til að ganga frá þessari óreiðu sem myndast í þessum aðstæðum. Hins vegar hafa flestir smá tíma til að taka upp úr einum kassa og ganga frá úr honum. Ég hef oft brennt mig á þessu og tala því af reynslu. Hver kannast ekki við að fara í brjálað átak í ræktinni og endast bara í mánuð?
4. Tíu mínútna reglan.
Þessi regla finnst mér algjör snilld. Taktu tímann og farðu í kapp við sjálfa þig. Gefðu þér 10 mínútur á hverjum degi þar sem þú reynir að klára eins mikið af heimilisverkum í einu og þú getur. Það er ótrúlegt hversu miklu er hægt að áorka með svona hugarleik. Ég geri þetta reyndar tvisvar til þrisvar á dag, enda nóg að gera á þessu heimili og ekki alltaf nægur tími til að dunda sér við heimilisverkin.
5. Opnaðu póstinn þinn yfir ruslinu.
Ekki safna póstinum þínum í hrúgu með það í huga að fara yfir hann seinna. Það skapar óreiðu. Farðu strax í gegnum póstinn þinn, settu í endurvinnslutunnuna því sem má henda og geymdu það sem geyma þarf. Ef að þú heldur bókhald settu þá reikningana á viðeigandi stað í möppuna strax.
6. Skipuleggðu tíma þinn.
Lendir þú oft í því að ná ekki að klára það sem þú ert búin að ákveða að gera? Ástæða þess gæti verið sú að þú ert ekki að skipuleggja tíma þinn nógu vel eða þá að þú sért að gera óraunhæfar kröfur til þín. Settu þér tímamörk og farðu eftir þeim. Það er mjög sniðugt að hafa dagatal, bók eða skipulagstöflu til að skrifa niður allt sem þú þarft að gera og alla staði sem þú þarft að mæta á. Ég er einmitt að útbúa skipulagstöflu eins og sést á myndinni hér að neðan.
7. Búðu til einfaldan leik fyrir heimilisverkin.
Þetta frábæra ráð sá ég á Pinterest um daginn. Börn eru oft viljugri til að taka þátt í heimilisverkum ef að búinn er til leikur í kringum þau. Settu niður á miða þau heimilisverk sem barnið ræður við, þú getur jafnvel prentað út með mynd og plastað til að gera meira spennandi.
Reyndu að hafa eins marga miða og mögulegt er en bara með einföldum verkum sem taka ekki langan tíma. Settu miðana í lítinn kassa og láttu barnið draga einn miða, barnið á svo að framkvæma það sem á honum stendur. Þennan leik gæti fjölskyldan farið í tvisvar sinnum í viku. Mundu bara að hafa húsverkin einföld.
8. Settu þér markmið.
Það gerir öllum gott að hafa eitthvað til að stefna að. Þú mátt alveg setja þér mörg markmið en reyndu að mynda einhvern tímaramma í kringum þau. Þannig eru meiri líkur á að þú náir þeim. Gott er að skrifa markmiðin niður því þá getur þú strikað yfir þau í hvert skipti sem þú nærð markmiði og það er svo hvetjandi að sjá árangurinn á blaði.
9. Ekki safna óþarfa drasli.
Ég reyni að safna ekki óþarfa drasli og fer t.d. reglulega í gegnum þvottinn á heimilinu og gef í Rauða krossinn. Ég er með poka inn í geymslu sem að ég hendi fötum í sem við erum hætt að nota og þegar að hann er fullur þá er farið með hann Rauða krossinn.
10. Gangtu frá því strax.
Ekki bíða með hlutina því þá safnast þeir upp. Settu í uppþvottavélina strax þegar þú ert búin að borða og búðu um öll rúm um leið og þú vaknar.
Að sjálfsögðu getur tekið tíma að finna takt og rútínu sem að hentar en ég er nokkuð viss um að þér muni líða mikið betur ef þú skipuleggur þig.
Bjarney Vigdís er mikil áhugamanneskja um allt sem viðkemur heilsu, uppeldi, eldamennsku, tísku, förðun, handavinnu, fegrun heimilisins og öðru pjatti. Hún er menntaður förðunarfræðingur og er jafnframt framúrskarandi húsfreyja sem heldur einnig úti sinu eigin bloggi. Hún býr á vesturlandi í litlum bæ ásamt manni sínum og 6 börnum.