Ef stelpa klæðir sig þannig að það sjáist í mikið bert og strákar fara úr jafnvægi við að horfa á hana, — hvort er þá vandamálið hennar megin eða stráksins?
Ég rakst á nokkuð áhugaverða frétt á People í gær en þar segir frá Gabi Finalyson sem er fimmtán ára og býr í bænum Highland í Utan fylki í Bandaríkjunum.
Gabi gerðist “sek” um að mæta of djarflega klædd á skólaball og var látin vera í yfirhöfn allt kvöldið, nánar tiltekið kápu sem hún notar bara á veturna.
Á myndinni hér til hægri má sjá Gabi í kjólnum en hann keypti hún í París og hafði hlakkað til í margar vikur að klæðast honum á ballinu.
Hún fékk þó ekki að leyfa kjólnum að njóta sín á þessu balli nema í nokkrar mínútur. Gabi var rétt kominn inn um dyrnar þegar kennari sendi hana fram og rak hana í kápuna, – kjólinn samræmdist ekki standördum skólans um æskilega blygðun stúlkna.
Í þessum skóla voru nefninlega settar reglur um að kjólar mega hvorki sýna of mikið af öxlum eða baki og kjóll Gabiar þótti of djarfur, hún fór bara alveg yfir strikið.
Gabi brást illa við eins og eðlilegt má teljast: „Af einhverjum ástæðum er búið að gera axlirnar á mér að einhverju dónalegu,” sagði hún í viðtali við KUTV. „Eins og það sé á mína ábyrgð að sjá til þess að strákarnir hugsi ekki einhverjar óhreinar hugsanir.”
Dresskódið í skólanum kveður á um að kjólar megi ekki vera svo opnir í bakið að þeir fari niður fyrir herðablöð og að hlýrar á kjólum verði að vera að minnsta kosti fimm sentimetra breiðir. Brjóstaskora má alls ekki sjást og sjöl, eða litlir jakkar eru samþykktir.
Mamma Gabi, Kristy Kimball, talaði líka við sjónvarpsstöðina:
„Skilaboðin hérna eru ömurleg og mjög skaðleg fyrir stelpurnar. Það er ekki eins og það sé nóg um slæm skilaboð til stelpna fyrir,” sagði mamman reið.
Gabi bætti við: „Í stað þess að kenna stelpum að hylja allt hold væri kannski gáfulegra að kenna strákum að líta ekki á okkur sem einhver kynlífstæki sem þeir geta starað á eins og þeim sýnist.”
Nunna eða drusla? Hvar eru mörkin?
Mér finnst þetta mjög áhugavert að mörgu leiti og í takt við umræðuna um ‘slutshaming’, druslugönguna og fleira.
Í sumum strangtrúuðum löndum er konum gert að hylja sig frá toppi til táar svo þær æsi nú ekki aðra karla en “eigendur” sína.
Nunnur flestra trúarbragða, hvort sem eru kristnar eða búddískar… passa líka vel að láta ekki sjást í neitt hold svo að enginn karl fari nú að æsast um of. En er það í alvöru á okkar ábyrgð hvort einhver náungi fari að hugsa dónalega eða æsist upp við það eitt að sjá öxl eða bringu? Og annað, — gerir það okkur slæmar?
Auðvitað ætti hverjum og einum að vera frjálst að klæða sig eftir smekk og sýna hold án þess að fá á sig neikvæðan stimplil. Strákur á hlýrabol er væntanlega ekki meiri drusla en stelpa á hlýrabol?
Viðmótið gagnvart Gabi (og þúsundum annara kynsystra) undirstrikar fyrir mér að Druslugangan er mikið þarfaþing og þessi umræða má gjarna vera mjög hávær. Hvar drögum við mörkin? Á stuttbuxum og bikiní, woderbra og stuttu pilsi, kjólnum hennar Gabi, búrku eða nunnuklæðum?
Það er sannarlega absúrd og illa gert að meta konur með neikvæðum hætti eftir því hvort þær kjósa að vera í þröngum fötum og flegnum sem sýna hold eða ekki.
Meðan barist er fyrir því að transfólk, fatlaðir, samkynhneigðir og þeldökkir njóti sömu virðingar og aðrir þegnar dæma bæði karlar og konur, stelpur og konur með neikvæðum hætti vegna þess að þær klæða sig þannig að karlar gætu mögulega fengið á þeim kynferðislegan áhuga! Þetta neikvæða viðhorf er í raun jafn rótgróið og að jólin beri að halda í desember, – hugsanlega sprottið af því að konur geta oft auðveldlega náð “valdi” á hugsunum karla með því að einu að láta sjást í smá bert og feðraveldið væntalega ekkert allt of hrifið af því? Maður sper seg?
Mögulega þurfa allir, bæði karlar og konur, að líta betur í sinn flegna barm?
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.