Nú þegar sumarið er í loftinu og fríin að byrja þá fer fólk oft að huga að því hvað hægt er að gera skemmtilegt með börnunum án mikils kostnaðar.
Það er mikil upplifun fyrir börnin að fara í smá ferðalag, breyta um umhverfi og skoða landið og það sem það hefur uppá að bjóða.
Hér eru nokkrar tillögur að því sem hægt er að gera á skemmtilegum sumardegi:
Veiðisafnið á Stokkseyri
Frábært safn að skoða bæði fyrir börn og fullorðna. Uppstoppuð dýr; gíraffi, ljón, zebrahestar, apar ásamt fjölda annarra dýra eru til sýnis og safnið er sett skemmtilega upp. Þar er einnig hægt að skoða skotvopn og fleira áhugavert.
Skessan í hellinum í Reykjanesbæ
Skessan býr í Svartahelli við smábátahöfnina í Gróf. Þar situr hún í fullri stærð og born og fullorðnir geta skoðað hana og ýmislegt henni tengt.
Skessan hefur lagt mikla vinnu í heimasíðuna sína og það gæti verið skemmtilegt að leyfa börnunum að skoða síðuna, prenta úr myndir til að lita af skessunni og fleira sem er í boði á heimasíðunni.
Brúðuheimar í Borganesi
Brúðuheimar eru lista- og menningarmiðstöð tengd brúðuleiklist, þar sem leiksýningar, námskeið, safn og kaffihús mætast á fallegum stað í líflegu andrúmslofti. Hægt er að fylgjast með dagskrá Brúðuheima á heimasíðu þeirra: www.bruduheimar.is
Leikhópurinn Lotta sýnir um allt land!
Sagan um Mjallhvíti og dvergana sjö er sýnd út um allt land og alltaf utandyra.
Þetta er frábær leikhópur sem nær vel til barnanna og sýningarnar þeirra eru fyndnar, vel leiknar og skemmtilega útfærðar.
Dagskrá sumarsins má finna á heimasíðu þeirra:
Hvalaskoðun í Reykjavík
Líklega þykir sjóferðin ein og sér spennandi og hvað þá ef að hvalirnir láta sjá sig.
Það eru margar ferðir í boði á öllum tímum sólahringsins og fyrir alla aldurshópa og mörg fyrirtæki sérhæfa sig í slíkum ferðum.
Bókasöfn og sundlaugar
Bókasöfn eru oft eins og gullnámur fyrir börnin og eru flest söfnin um allt land farin að leggja mikið í barnadeildirnar.
Sundlaugar landsins eru einnig flestar mjög barnvænar og um að gera að skella sér í sund í næsta bæjarfélgi til að breyta til. Víða má finna skemmtileg útisvæði og skóga þar sem gaman er að setjast niður og borða nesti og njóta samverunnar. Flest hér að ofan er nálægt höfuðborgarsvæðinu – endilega gefið okkur hugmyndir um hvað er hægt að gera skemmtilegt í öðrum landshlutum.
Mikilvægast er að sjálfsögðu að skemmta sér með börnunum, keyra varlega og njóta sumarsins!
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.