Það er aldrei of seint að komast í form þrátt fyrir að við höfum brotið mörg áramótaheit og notum allar afsakanir í heimi til að þurfa ekki að koma okkur af stað.
Tímaleysi og peningaleysi eru örugglega algengustu afsakanirnar. En það hefur enginn afsökun fyrir því að hreyfa sig ekki, það kostar nefnilega ekki krónu.
Nú er sumarið að koma og þá er enn skemmtilegra að fara út að hreyfa sig, hér koma nokkrar hugmyndir:
Útivistarsvæði borgarinnar:
- Elliðaárdalur
- Öskjuhlíð
- Heiðmörk
Hér er yndislegt að hjóla, hlaupa eða ganga um. Mér finnst frábært að enda gönguferð um Öskjuhlíð í Nauthólsvík og dýfa þreyttum fótunum í heita pottinn. Stundum rekst maður líka á sjósundkappa en það er líka skemmtilegt sport fyrir þá sem þora.
Sundlaugarnar:
Við íslendingar búum við þvílíkan lúxus að geta farið í heitar laugar fyrir lítinn pening, sund er ein sú heilsusamlegasta íþrótt sem þú getur stundað. Heitu pottarnir lina vöðvabólgu og hjálpa okkur að slaka á og gufan er góð fyrir heilsu og húðina. Í gufu opnast húðin og við svitnum út allskonar eiturefnum sem við sönkum að okkur og eftir gufu er best að fara í kalda sturtu til að loka húðinni aftur og og hressa okkur við, svo hef ég heyrt að þetta vinni líka á appelsínuhúð, hiti+ kuldi til skiptis.
Heimaleikfimi:
Þegar maður er mikið fastur heima eins og ég er nú í fæðingarorlofinu þá finnur maður ýmsar leiðir til að hreyfa sig. Stigarnir eru frábær leið til að hita upp, nokkrar ferðir upp og niður stigana og maga, rass og læra æfingar á eftir er góð heimaleikfimi.
Einnig var ég svo sniðug að fjárfesta í jógamyndbandi, skelli því í og voilá er komin með klukkutima powerjógasession heima í stofu.
Það er svo margt hægt að gera sem ekkert kostar, við höfum enga afsökun fyrir því að liggja í leti og allra síst þegar sumarið er komið 😉
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.