Um daginn fór ég “offörum” og gerðist svo djörf að gagnrýna klæðnað Ragnhildar Steinunnar og Evu Maríu í Júróvisjón.
Það kom á daginn að margir voru á sama máli og gekk Linda Björg Árnadóttir fagstjóri hönnunardeildar svo langt að senda Evu Maríu bréf þess efnis að frá faglegu sjónarmiði þá væri þessi klæðnaður og umgjörð keppninnar allrar smekklaus.
Það fýkur í marga við svona hreinskilnar athugasemdir og er svo komið að Marta María er búin að fjalla um þetta bréf á Pressunni.
En hvers vegna gilda aðrar reglur þegar íslenskir hönnuðir eiga í hlut, eigum við ekki alveg eins rétt á að gagnrýna þá eins og hönnuði úti í heimi? Hvers vegna þarf þetta að verða að persónulegu særindamáli?
Nú er ég nokkuð viss um að Marta María og Birta í Júníform eru vinkonur og þessvegna er Marta María sár fyrir hönd vinkonu sinnar og reynir að koma henni til varnar.
En horfum á þetta frá faglegu sjónarmiði eins og Linda Björg gerir, Birta í Júníform er ekki menntaður fatahönnuður, hún fer ekki eftir ríkjandi tískustraumum en hefur jafnframt notið vinsælda og búð hennar gengur vel þó fatnaður hennar fellur ekki að smekk allra og er þannig er það með allra fatnað.
Ragnhildur Steinunn virðist reyndar hafa tekið sérstaklega miklu ástfóstri við Júníform og sést nánast öll kvöld í fatnaði frá þeim. Það er alveg gott og blessað að vilja ”auglýsa” fatnað vinkonu sinnar en það væri vel þegið af hönnuðum þessa lands að þær stöllur í sjónvarpi myndi sýna meiri fjölbreytileika og klæðast hönnun fleiri hönnuða en Júníform og Spakmannsspjara. Þeir eru jú mikið fleiri.
RÚV er miðill í almannaeign og starfsfólk þessa miðils ætti að taka mið af því fá ráðgjöf hæfileikaríkra fagaðila til að sjá um uppsetningu allrar umgjarðar sjónvarpsefnis í beinni, allt frá sviðsmynd til klæðnaðar og förðunar, og byggja þetta upp á fjölbreytni frekar en klíkuskap.
Kv,
Vala
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.