Fyrir rúmum fimm vikum byrjaði HBO að sýna þáttinn Girls. Þátturinn fjallar um kunnulegt málefni, fjórar stelpur rétt komnar yfir tvítugt sem búa í New York í samtímanum, en strax frá byrjun leit hann út fyrir að vera eitthvað allt annað en hefur hingað til hlotið hylli í sjónvarpi.
Þættirnir eru hugarsmíð hinnar 26 ára gömlu Lenu Dunham, en hún framleiðir einnig þættina með Judd Apatow og skrifar þá og leikstýrir. Lena leikur líka aðalpersónuna í þáttunum hina áttavilltu Hannah, sem er svo dásamlega týnd í lífinu að hún gæti allt eins verið raunveruleg, enda er einhver partur af þáttunum byggður á lífi Lenu sjálfrar.
Lena hefur t.d. sjálf sagt að hún, eins og Hannah hafi átt samkynhneigða kærasta og ekki haft hugmynd um það að þeir væru samkynhneigðir. Hún hélt því að vísu líka fram að þetta hlyti að vera genatengt því mamma hennar hefði líka átt einhverja samkynhneigða kærasta, sem komu svo seinna út úr skápnum.
Þættirnir hafa bæði verið lofaðir og gagnrýndir í Bandaríkjunum, en eitthvað við þá er svo gott að fólk virðist ekki geta sleppt því að horfa og hafa þættirnir strax vakið mikið umtal, enda fást þeir við málefni sem sjaldan koma fram í öðrum sjónvarpsþáttum líkt og fóstureyðingar, myndskilaboð af kynfærum, sjálfsfróun stelpna og þeir sýna einhvernvegin algjörlega nýja hlið á stelpum með lágt sjálfsmat.
Girls eru þættir sem íslenskar sjónvarpsstöðvar ættu að taka til sýninga sem fyrst og allir ættu að sjá sem vilja skyggnast aðeins inn í hugarheim stelpna.
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=Q_L52eExAHU[/youtube]Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.