Ég verð ekki oft alveg húkkt á sjónvarpsefni. Það þarf mikið til að skemmta mér. Ég hef í gegnum tíðina séð svo hrikalega mikið af myndum og þáttum og lesið svo margar sögur að nú veit ég yfirleitt alltaf hvað gerist næst.
Spyrjið bara manninn minn. Hann starir stundum á mig þegar ég ligg eins og véfrétt í trans við hlið hans og þyl upp komandi atburðarás í þáttum sem við horfum á. Þessi spáskyggni gerir það að verkum að nú er það ekki endilega plottið í þáttunum sem togar mig mest til sín heldur týpurnar.
Það er ekkert auðvelt fyrir handritshöfund að gera góðar og trúverðugar persónur. Það er heldur ekki auðvelt að skapa áhugaverðar og/eða spennandi aðstæður sem þessar persónur lenda í.
Megnið af því sjónvarpsefni sem við skemmtum okkur yfir er í raun óttaleg froða og þessvegna verður maður svo ægilega glaður þegar maður festir glyrnurnar á einhverju sem er ekki froða. Og þá sný ég mér að merg málsins sem eru dansk/sænsku þættirnir BROEN!!
BÚIN AÐ MERKJA Í DAGATALIÐ
Þriðja þáttaröðin var að byrja á RÚV síðasta sunnudag, – og ég er að segja ykkur það, ég var búin að merkja það inn á dagatalið hjá mér, slíkur var spenningurinn!
Fáar rannsóknarlöggur hafa heillað mig jafn mikið og hún Saga Norén. Auðvitað spilar inn í að það er allt of margt líkt með okkur og sjálfhverfa mín er slík að ég skemmti mér sérstaklega við að spegla mig í þessari persónu. En það þarf að sjálfsögðu fleira…
LISBETH OG SAGA MYNDU ÞEGJA SAMAN
Það er alltaf meira spennandi að horfa á trúverðugar aðstæður og umhverfi.
Einhvernveginn er grámóskulegur dansk/sænskur veruleiki öflugri í mínum augum en hasar hjá íðilfögrum kroppum með hvítar tennur sem berjast undir pálmatrjám við strendur Miami. Nú eða hoknir tedrykkjumenn í vaxbornum jökkum sem leysa flóknar morðgátur í uppsveitum Englands.
Ég hef til dæmis elskað hinn sænska Kurt Wallander sem leysir glæpamál í smábænum Ystad í mörg ár og ég get hreinlega ekki beðið eftir því að einhver taki sig til við að gera þætti um svaðilfarir hins norska alkóhólista Harry Hole. Þá er nú ónefnd hin ofursvala Lisbeth Salander sem kom eins og ferskur sótsvartur andvari á sínum tíma í Karlar sem hata konur. Saga Norén gæti alveg fengið sér kaffibolla með Lisbeth. Þær myndu þó örugglega bara þegja saman enda svakalegir naglar, báðar tvær. Konur eru mjög oft naglar. Það sést bara ekki oft í bíó og sjónvarpi.
LESBÍSKUR KYNJAFRÆÐINGUR – MJÖG 2015
Í fyrsta þætti þriðju þáttaraðar af Broen, sem frumsýndur var á sunnudag, stóð Saga Noren frammi fyrir því að þurfa að finna út hver drap miðaldra lesbískan militant kynjafræðing og skar úr henni hjartað. Stillti svo kynjafræðingnum upp við eldhúsborð ásamt gínum til að endurskapa hefðbundna vísitölufjölskyldu; pabbi, mamma, börn og bíll. Morðinginn virðist semsagt argur yfir þessum framúrstefnulega kynjafræðingi sem vildi meina að í raun væri ekki til neitt kyn, við værum öll bara manneskjur og algjörlega félagsmótuð.
Svona hefði engum dottið í hug að skrifa fyrir tuttugu árum, varla tíu árum. Þetta er mjög 2015 af því nú eru allir að fagna fjölbreytileikanum, allskonar fjölskyldum og hinu og þessu allskonar. Þannig var það ekki 2005.
ENGIN KARL OG EKKERT SEXAPPÍL
Saga Norén hefði tæpast líka verið persóna í þætti árið 2005. Hún er alveg sjálfstæð, óháð, enginn sérstakur karl í lífi hennar og það er engin sérstök áhersla á að gera hana eitthvað sexý þó hún sé í raun myndarleg, ung kona. Hún er bara lögga. Svolítið skrítin en mjög góð lögga sem er arfaslök í að spjalla um daginn og veginn við aðra.
Í fyrsta þættinum í þriðju þáttaröð kom líka önnur kvenlögga við sögu. Miðaldra rám og hrukkótt dönsk kona sem var ekkert allt of hrifin af Sögu. Það er ekki oft sem við sjáum miðaldra konur í sjónvarpi og bíó, eða bara fjölmiðlum almennt. Þessu tók ég því auðvitað fagnandi (svo lengi sem það entist).
Því fjölbreyttara sem týpugalleríið er, því betra. Því forvitnilegri sem kvenpersónurnar eru, því betra. Því meira sem sagan og plottið endurspeglar tíðarandann og það sem við erum að velta okkur upp úr núna, því betra. Broen hefur allt þetta!
Ég hvet þig til að horfa og þá sérstaklega ef þú ert þessi týpa sem verður að hafa allt afþreyingarefni á ensku. Þú veist bara ekki hverju þú ert að missa af!!! Þeir eru HÉR í sarpinum á RÚV.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.