Að undanförnu hef ég fylgst lítillega með þáttunum Hamingjan Sanna sem sýndir eru á Stöð 2.
Í þáttunum sjáum við hóp af fólki fara í gegnum sjálfsskoðun undir leiðsögn Ásdísar Olsen en hún og maður hennar Karl Ágúst Úlfsson þýddu bókina Meiri Hamingja sem þættirnir eru byggðir á. Þar er fjallað um leiðir fyrir venjulegt fólk til að bæta líf sitt og líðan í daglegu lífi og gera þau margskonar tilraunir til að bæta lífsgæðin með þessum aðferðum.
Mér hefur þótt svolítið gaman að fylgjast með fólkinu í þáttunum. Ekki einungis af því ég hefvoða gaman af hvers kyns sjálfsskoðun og andlegum þroskaleikjum heldur einnig vegna þess að mér finnst fólkið svo hugrakkt.
Við erum alltaf að horfa á allskonar fólk koma fram í Opruh og hjá Dr. Phil að tala um sín hjartans mál fyrir framan aðra en það er svo sjaldan sem Íslendingar þora í einlægni að stíga fram með tilfinningamál sín eins og það sé ekkert til að skammast sín fyrir.
Líklegast stafar þetta af því að við erum svo óskaplega fá (öll þjóðin er jafn stór og íbúar bæjarins Hull) og svo erum við jú svo miklir “töffarar”. Það er ekki langt síðan að við föðmuðumst hvorki né kysstumst þegar við hittumst á mannamótum heldur var yfirleitt heilsast með handabandi og þá þótti réttast að hafa það vel þétt.
Reyndar er fólkið í Hamingjan sanna ekki nærri eins opinskátt og þau eru oft í Bandaríkjunum en engu að síður eru þau opnari en gengur og gerist – og það er bara af hinu góða. Það er miklu betra fyrir manneskjuna að leyfa sér að vera tilfinningavera í stað þess að reyna alltaf að halda kúlinu, þó vissulega þurfi að vera jafnvægi þarna á. Það er ekki það sama að tala um sín innri mál og andlega þroska eða erfiðar reynslur af lífinu sjálfu. Slíkt er daglegt brauð í viðtölum en hitt er vandasamara.
Ég held að það séu tveir þættir eftir í seríunni og ég vona að ég rambi á þessa tvo síðustu. Þetta er flott framtak og vonandi verða fleiri svona þættir í sjónvarpi sem auka á samúð og samkennd með öðru fólki. Það er bara af hinu góða.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.