Sunnudagskvöld eru uppáhalds sjónvarpskvöldin mín og ástæðan er að nú er byrjað að sýna Dallas á stöð 2.
Ég ræddi þetta við 16 ára dóttur vinkonu minnar um daginn. Hún skildi mig ekki. “Hvað er þetta Dallas?”
Svo ég útskýrði fyrir henni í einföldu máli að þetta væri þáttur þáttanna!
Þarna væru glamúr og hressileg svik hægri vinstri á milli fjölskyldumeðlima. Risa fjölskylda sem flest öll svindluðu hvert á öðru. J.R. væri snillingur snillinganna, orðheppinn refur, algjörlega siðlaus þegar kæmi að mannlegum samskiptum.
Sue Ellen fyrrverandi konan hans var drykkjusjúklingur því að eigin sögn varð hún bara að fá sér sjúss til að lifa hjúskapinn af með J.R.
Bobby og Pamela, algjörlega átrúnaðargoð mín á barnsárunum.
Svo sæt og yndisleg bæði tvö að það hálfa væri hellings nóg. Svo var það hún Cyndi, lítil brjóstgóð blondína sem þorði að segja það sem hún hugsaði þrátt fyrir að það væri lítt gáfulegt. Já…sagði dóttirin. Þú meinar að þetta hafi verið svona Bold and the beautiful gamla tímans?
Bold and the beautiful!! Gamli tíminn? Hvað meinarðu? Þá rann það upp fyrir mér. Ég er farin að tala um í gamla daga þá voru hlutirnir nú svona og svona. Allt var svo gott í þá gömlu góðu daga. Dallas, Löður og Húsið á sléttunni.
Úfff…samt er ég bara rétt svo rúmlega og ríflega þrítug. Ætla engu að síður að halda áfram að bíða eftir sunnudagskvöldunum með popp í annari og kók í hinni…ofurspennt!
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=qOZBnIhRF9Y[/youtube]
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.