Fiskur og skelfiskur hvers konar er léttur, ljúffengur og hollur matur sem við eigum að hafa sem oftast á borðum. Sjávarfang fer mjög vel með fersku kóríander, en sú kryddjurt er í miklu uppáhaldi hjá mér enda er ég óþreytandi að prófa hana í ýmsa rétti.
Kóríander gefur mjög sérstakan keim og hæfir einkar vel með ýmsum kjúklinga- og fiskréttum. Það er mjög auðvelt að rækta kóríander og hvet ég ykkur til að gera það. Hér er frísklegur og sumarlegur réttur sem hentar vel í hitabylgjunni sem framundan er!Meðlætið er skemmtileg og dálítið exótísk blanda af kiwi, límónu, chillí, kóríander og fleiru. Best er að búa það til áður en skelfiskurinn er eldaður því hann þarf mjög stutta stund á pönnunni.
Uppskriftin er fyrir fjóra:
- 600 g hörpuskel (helst stór)
- 200 g rækjur
- 3-4 hvítlauksrif, marin
- 1 msk. ólífuolía
- grófmalaður pipar og salt
Hitið ólífuolíu á pönnu og blandið hvítlauknum saman við. Setjið hörpuskelina út á, saltið og piprið og eldið aðeins í um 2 mínútur á hvorri hlið, fer eftir stærð stykkjanna. En passið að minnsta kosti að elda hörpudiskinn ekki of mikið. Rækjunum er skellt út á pönnuna rétt í lokin, velt aðeins upp úr hvítlauksolíunni og hitaðar örlítið.
Meðlæti:
- 1 rautt chillíaldin, smátt saxað
- safi af einni límónu
- 2 kiwi, skorin smátt
- 1 lárpera, (avocado) smátt skorin
- handfylli ferskt kóríander, saxað
- smá salt
Hrært saman í skál og borið fram með fiskinum ásamt hýðishrísgrjónum.
Þeir sem geta ekki verið án sósu, ættu að bera kalda hvítlaukssósu fram með þessum rétti, t.d. sem búin er til úr grískri jógurt.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.