Nú er heldur betur farið að hausta. Appelsínurauðum og gulum laufblöðum fjölgar ört, vindurinn komin á fleygiferð, regndroparnir orðnir ákveðnari og mál að taka til lopapeysuna og lopavettlingana, hafa allt til taks fyrir kuldabola – þá er líka hægt að taka honum fagnandi.
Hver árstíð hefur sinn sjarma, það er bara að búa sig undir þær aðstæður sem eru framundan.
Þegar fer að kólna í veðri þá er það eina skynsamlega í stöðunni að klæða sig í hlýrri fatnað. Ef þú ert með börn á þínum vegum þá hefur þú vafalítið hugað að því að þau hafi hlý föt fyrir veturinn, þú vilt ekki að þeim verði kalt. Þú hefur jafnvel leitt hugann að því hvort aðrir í fjölskyldunni hefðu það sem þeir þurfa helst á að halda fyrir haustið og veturinn.
En hvað með þig sjálfa?
Við erum svo oft fljótar að hugsa um þarfir annarra að við tökum tilhlaup til að sinna þeim – en stökkvum yfir okkar eigin þarfir. Kannast þú við það?
Við getum yfirfært undirbúninginn fyrir veðrabreytingar yfir á svo margvíslegar breytingar sem geta orðið á persónulegum högum okkar á lífsleiðinni. Hvað gerum við til að undirbúa okkur fyrir þær? Hvað gerir þú til að rækta sjálfa þig, ekki bara líkamlega í gönguferðunum og líkamsræktinni, heldur hvað gerir þú til að næra þig af innri uppbyggingu? Mögulega ekki nóg.
Nú þegar haustið er gengið í garð er um að gera að huga dálítið að okkar eigin líðan og velferð. Undirbúa okkur þannig fyrir næstu mánuði sem verða vafalítið dálítið krefjandi hjá mörgum. Gefðu þér tíma til að setjast niður og skoða aðeins sjálfa þig, aðstæður þínar, daglegt líf þitt, hvað þú ert ánægð með, hvar þú þart að styrkja þig. Hugleiddu líka hvað þú ert að gera fyrir sjálfa þig. Hvernig sérðu sjálfa þig blómstra í vetur, njóta þess að vera þú sjálf?
Láttu þetta verkefni fá forgang hjá þér. Ljúktu því innan 24 klst.
Stórgrýtið má alltaf losna við með réttri aðferð
Þegar laufblöðin byrja að falla af trjánum og fylla niðurföllin í heimkeyrslunum og á götunum þá fer allt að flæða í rigningunni, ekki satt.
Það sama gerist hjá okkur – við tökum ekki endalaust við. Við verðum að hreinsa burt gömlu, fölnuðu laufblöðin sem hafa fallið hjá okkur sjálfum, innra með okkur og opna þannig farveg fyrir nýjar hugmyndir, nýjar leiðir til að njóta lífsins gæða til hins ýtrasta. Lífið er svo yndislegt að við þurfum að fara vel með það, skoða alla valkosti vel og vandlega.
Ef þú rekst á fyrirstöðu í lífinu, eitthvað sem þú ert að glíma við og finnst óyfirstíganlega erfitt – hugsaðu þá um það sem stórgrýti.
Það er almennt hægt að færa til stórgrýti með ýmsum aðferðum. Stundum þarf ekki nauðsynlega mikið afl til þess – heldur aðeins „rétta aðferð“, aðferð sem getur reynst tiltölulega auðveld og með litlar aukaverkanir. Við megum aldrei halda að við séum einar með okkar vanda – hver svo sem hann er. Það er alltaf einhver sem er tilbúin til að aðstoða okkur við að finna okkar eigin lausnir á okkar eigin vanda.
Ekki bera þig saman við aðra
Gefðu sjálfri þér tíma og frelsi til að blómstra með því að vera þú sjálf. Þú þarft ekki að vera stöðugt að bera þig saman við aðrar konur. Slíkt er algjör óþarfi. Þú ert einstök og býrð yfir einhverju sem enginn önnur kona býr yfir. Þó svo að við viðurkennum að við séum ekki ómissandi (sem betur fer) þá getum við samt viðurkennt að við séum einstakar, hver og ein okkar er mikilvæg, hver á sinn hátt og með því að sameina krafta okkar verðum við öflugar.
Stundum þarf aðeins lítið bros, smá uppörvun, smá hrós eða smá spjall og þar með er búið að færa stórgrýtið fyrrnefnda úr vegi. Farðu í smá hausttiltekt innra með þér, byggðu á því jákvæða og leitaðu eftir því að finna hvað þú getur gert til að leyfa sjálfri þér að blómstra. Þegar þú nærð að blómstra … líka að vetrarlagi, þá opnast enn fleiri blóm í kringum þig. Þá ert þú líka sterkari fyrir ef það skellur allt í einu á innri stórhríð án fyrirvara.
Til að svo megi verða þarf að vinna vel í sínum málum. Elskaðu sjálfa þig, berðu virðingu fyrir sjálfri þér, farðu vel með sjálfa þig – leyfðu þér að BLÓMSTRA.
Bestu kveðjur Jóna Björg Sætran M.Ed., markþjálfi www.coach.is
Jóna Björg er menntunarfræðingur, M.Ed., frá KHÍ, er með alþjóðlega vottun sem ACC markþjálfi frá ICF (International Coach Federation) og er einnig Feng Shui ráðgjafi.
Í vetur hefur Jóna Björg svo lagt stund á Hugræna atferlismeðferð (HAM) í Endurmenntun HÍ. Jóna Björg starfar sjálfstætt við einkaleiðsögn, námskeiðahald, ritstörf, fyrirlestra og ráðgjöf jafnt hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Hún var leiðbeinandi hjá Brian Tracy International hér á landi og er fyrrverandi námstjóri hjá menntamálaráðuneytinu.
Jóna Björg fer ótroðnar slóðir, elskar að takast á við krefjandi verkefni og finnst langmest gefandi að vinna með fólki að bættri líðan, meiri hamingju og hugrró.
Einkunnarorð hennar eru: Blómstraðu í einkalífi og starfi, njóttu þess að vera þú!