Um daginn skrifaði ég stuttlega um átakið mitt sem ég kallaði: “Burt með bumbuna og beint í bikiní!” enda á: “Í kjólinn fyrir jólin” enganvegin við svona þegar vorið er að detta inn.
Eníhú. Ég get ekki annað sagt en að átakið hafi gengið vonum framar og ég þakka það nokkrum þáttum:
Guðbjörgu Finnsdóttur í Hreyfingu -DVD tækinu mínu og flakkaranum þar sem ég hef spilað workout, jóga og pílates diskana mína, tölvupóstsendingum milli mín og Ellenar þar sem við tölum um mataræði og síðast en ekki síst: Ommilettu með reyktum laxi eða silungi, Dijon sinnepi og spínati sem er rennt niður með svörtu kaffi. Besta megrunarfæða í heimi!
Á um 5 vikum missti ég 3 kg af mjaðmamör og sixpakkinn kom í ljós. Ekkert muffins út yfir gallabuxnastrenginn og Ellen finnst ég til fyrirmyndar. Þetta er óskaplega gaman.
Ellen (vinkona mín) hefur einmitt líka verið í átaki og við höfum bakkað hvor aðra upp með því að senda email á hverju kvöldi þar sem við segjum hvor annari frá því hvað var snætt yfir daginn. Þetta hefur virkað mjög vel á okkur af því bæði getum við sagt: Hey, ertu ekki að borða of lítið? Eða.. Hvað er málið með að fá sér 3 próteinstangir á dag? (s.s. veitt aðhald (betur sjá augu en auga) og svo fattar maður sjálfur svo vel hvað fer í skrokkinn þegar það er sent rapport á hverju kvöldi.
Ommiletta með laxi og spínati:
Hrærðu 3 egg í skál og notaðu bara 1 rauðu (rauður innihalda svo mikið kólestról). Kryddaðu eggjahræruna eftir smekk og steiktu á lítilli heitri pönnu. Lyftu ommilettunni til hliðanna með spaða og láttu eggið renna undir á heita pönnuna. Vippaðu ommilettunni á hina hliðina, steiktu í 30 sek og settu á disk. Skelltu spínatinu á pönnuna og láttu það pompa niður (gott að kreista smá sítrónu yfir).
Skerðu nokkrar sneiðar af reyktum laxi og settu, ásamt spínatinu, á helming ommilettunnar. Smyrðu með Dijon sinnepi og dassaðu með smá parmesan ef þú vilt. Flettu svo eggja(pönnu)kökunni yfir kræsingarnar og byrjaðu að borða. Mmmmm….
Átaksnámskeiðið sem ég skellti mér á í Hreyfingu er líka með því besta sem ég hef reynt. Aðhaldið svo gott að maður espast allur upp af keppnisskapi og hefur engann áhuga á því að ljúka námskeiðinu án þess að ná settu marki. Svo er Hreyfing alveg frábær staður að æfa á og það eru nokkrar ástæður fyrir því.
Fyrir Pjattrófu eins og mig, sem er um 1.60 á hæð, er t.d. vonlaust að æfa í Laugum þar sem maður nær ekki almenninlega upp í spegilinn í skápahurðinni. Og lýsingin er að auki glötuð. Hvernig á að vera hægt að mála sig við þessar aðstæður? Eða að fara með allt dótaríið fyrir framan klósettdyrnar og reyna að gera þetta þar við vaskana? Ómögulegt!
Í Hreyfingu er þetta önnur saga. Þar eru innbyggð ljós í speglana og þú getur setið á háum stól og málað þig í rólegheitunum. Nóg pláss fyrir okkur allar. Bómull og eyrnapinnar eru þar í boði fyrir pjattrófur og allt er sérlega snyrtilegt og fínt. Ég fíla það.
Allar konur þurfa að hafa almenninlega aðstöðu til að punta sig. Það eru kvenréttindi!
Nú. Svo eru það DVD diskarnir sem maður er með heima og getur gripið til hvenær sem er. Það er æði t.d. að taka einn pilates tíma fyrir háttinn ef maður hefur ekki komist til að æfa yfir daginn. Það eru engar afsakanir í boði ef átakið á að vera í alvöru.
Þú getur fengið svona diska allstaðar og þeir eru oft mjög ódýrir á AMAZON eða Play.com.
Ég mæli með þessu öllu ef þig langar að verða fitt fyrir sundlaugarnar í sumar. Og mundu hvað Helena Rubinstein sagði:
“Það eru ekki til ljótar konur -bara latar!” 😉
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.