Múffur eru heillandi. Það er eitthvað við þær sem gerir þær ómótstæðilegar. Fallegar og freistandi við hvaða tilefni sem er. Múffur eru ekki bara múffur, þær eru margvíslegar og misjafnar, sætar jafnt sem ósætar, litlar eða stórar, ljósar eða dökkar, skrautlegar eða látlausar.
Allir þessir möguleikar hafa einmitt heillað mig í gegnum tíðina og óteljandi tilraunir verið gerðar í múffugerðinni.
Múffurnar sem ég gef uppskrift að hér eru undir áhrifum frá árstíðinni og hátíðinni sem framundan er. Guli liturinn og sá græni minna á páskana og vorið sem er á allra næsta leiti og ekki síður bragðið af sítrónum og ferskri myntu sem kynda undir réttu stemmninguna.
- 250 g hveiti
- 200 g sykur
- 1 tsk. salt
- 1 tsk. lyftiduft
- 150 g smjör
- 2 egg
- 1 dl mjólk
- 1 msk. sítrónudropar
- rifinn börkur af ½ sítrónu
- 2 msk. fersk mynta, smátt söxuð
Blandið þurrefnunum og hrærið saman við smjörið í hrærivél. Bætið út í helmingnum af mjólkinni. Hrærið síðan í annarri skál með handþeytara, eggin, afganginn af mjólkinni og sítrónudropum. Bætið sítrónuberki og myntunni út í eggjahræruna. Hellið síðan hrærunni saman við þurrefnin og smjörið og hrærið þar til deigið verður jafnt og slétt. Skiptið deiginu í tólf múffuform og bakið við 170 gráður í 20-25 mínútur.
Krem:
- 200 g flórsykur
- 70 g smjör
- ½ dl mjólk
- safi af ½ sítrónu
- nokkrir dropar af gulum matarlit, ef vill
Sigtið flórsykurinn í skál og hrærið vel saman við smjörið. Bætið sítrónusafanum og mjólkinni saman við í smáum skömmtum. Bætið matarlitnum saman við ef þið kjósið að lita kremið. Hrærið kremið vel í nokkrar mínútur þar til það er orðið létt í sér.
Múffurnar eru skreyttar með ferskri myntu og örlitlu kökuglimmeri stráð yfir.
Rósa starfaði um árabil sem blaða- og fréttamaður lengst af hjá fréttastofu Stöðvar tvö og Bylgjunnar. Hún hefur skrifað um mat og matargerð í ýmis blöð og tímarit, þar af í rúman áratug fyrir Gestgjafann. Rósa gaf út sína fyrstu matreiðslubók, Eldað af lífi og sál, haustið 2009. Nú starfar Rósa við ritstörf hjá Bókafélaginu og er bæjarfulltrúi í Hafnarfirði.