Áður en ég fór á Sirkushátíðina í Vatnsmýrinni á sýningu Kallo Collective, Members of Our Limbs nefndi ég það við vinkonu mína sem var með í för að ég hefði alltaf svo gaman að því að gera eitthvað svona öðruvísi — og það er svo sannarlega það sem sýning Kallo Collective er, öðruvísi!
Sýningin fór fram í alvöru sirkustjaldi þar sem bekkjum er raðað í kring um hringlaga svið sem skapar skemmtilega stemmingu. Við vinkona mín plöntuðum okkur á fremsta bekk til að sjá sem best upp á sviðið en áttuðum okkur svo á því þegar leið á sýninguna að við vorum aðallega í félagsskap barna þarna á fremstu bekkjunum sem var bara gaman, enda við alveg jafn spenntar fyrir sýningunni og börnin!
Kallo Collective lýsir sér sem líkamlegu leikhúsi og nútíma sirkushóp. Sýningin Members of Our Limbs minnti um margt á trúðasýningu í gömlum sirkus nem hún er bara svo miklu meira “hip og kúl”.
Umfjöllunarefni sýningarinnar voru alls kyns hversdagslegum viðfangsefnum líkt og kaffiást, deitmenning og fleira og var sýningin bæði fyndin og skemmtileg.
Áhorfendur voru bæði fullorðnir og börn og virtust báðir hópar hafa jafn gaman að þessari einstöku sýningu og það var alveg einstaklega gaman að fylgjast með þessari trúðslegu uppfærslu á daglegu lífi.
Um helgina er seinasta helgi Sirkushátíðarinnar og ég hvet alla til að nýta sér þetta einstaka tækifæri að skella sér í sirkus!
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.