Silfurvegurinn er fyrsta bók sænska höfundarins Stinu Jackson en þessi frábæri talent fæddist árið 1983 í Skellefteå í norðurhluta Svíþjóðar. Bókin var kosin besta sænska glæpasagan 2018 af Sænsku glæpasagnaakademíunni og hefur slegið í gegn hjá bæði glæpasagnafíklum og öðrum bókaormum.
Við upplifum söguna annars vegar frá sjónarhorni framhaldskólakennarans Lelle, sem hefur í þrjú ár leitað linnulaust að dóttur sinni sem hvarf sporlaust úr þorpinu, og hinsvegar frá Meju sem er tæplega tvítug aðkomustelpa í þorpinu en hún er einmitt á svipuðum aldri og dóttir Lelle var þegar hún hvarf. Eftir því sem sögunni vindur áfram tvinnast líf þessara tveggja ólíku einstaklinga saman og úr verður mikil spenna.
Brotnir einstaklingar með ólíkan bakgrunn
Karakterarnir í Silfurveginum eru ljóslifandi á sögusviðinu sem er þessi litli smábær í norður Svíþjóð og allt umhverfið er auðvelt að sjá fyrir sér. Skóginn, veginn, þorpið og bóndabæinn þar sem vinur Meju býr ásamt mjög undarlegri fjölskyldu sinni. Þetta eru enganveginn klisjukenndar persónur og það sama má segja um plottið enda fer lítið fyrir rannsóknarlögreglum í sögunni. Þetta er sem sagt ekki einn af þessum norrænu krimmum, með skrítnum eða geðstirðum lögreglumanni/konu í forgrunni, heldur tveimur brotnum einstaklingum með mjög ólíkan bakgrunn og veruleika.
Sannfærandi og sympatísk
Bæði Lelle og Meja eru sympatískir og sannfærandi karakterar. Meja er mjög umkomulaus enda mamma hennar veik af bæði geðhvarfa og áfengissýki og Lelle, sem er bugaður af sorg og einmanaleika virkaði líka mjög sterkt á mig sem karakter. Það má þannnig segja að höfundinum hafi tekst mjög vel að skapa bæði djúpar og sannfærandi aðalpersónur.
Niðurstaða
Silfurvegurinn er skáldsaga sem bókaormar ættu ekki að láta framhjá sér fara. Hún er áhugaverð, spennandi og eftirminnileg og það verður gaman að sjá hvers er að vænta frá þessum flotta höfundi.
Bókin er gefin út af Uglu og Friðrika Benónýs þýddi. Bókin kostar 3490 kr í vefverslun Forlagsins.
[usr 4.0]Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.