Sigurgeir Jónasson, starfsmaður hjá Epli, er venjulegur ungur íslendingur. Venjulegur fyrir utan það að hann leikur vinsæl lög á Panflautu sjálfum sér og öðrum til yndisauka.
Þetta væri ekki í frásögu færandi nema hvað að Sigurgeir náði nýlega einni milljón áheyrenda á Youtube þar sem hann spilar ABBA lagið Chiquitita á panflautu.
Sigurgeir er að vonum mjög ánægður með að hafa rofið 1.000.000 múrinn og orðið viral á netinu eins og það kallast.
Pjatt.is sló á línuna til Sigurgeirs og forvitnaðist um þetta óvenjulega áhugamál.
Hvernig kom það til að þú fórst að spila á panflautu?
„Foreldrar mínir voru við nám í Bandaríkjunum þegar ég var lítill. Við bjuggum í Flórída og þar var ein fóstran á leikskólanum sem átti panflautu og spilaði stundum fyrir okkur börnin. Ég held hún hafi verið frá Perú og við vorum alveg sérstakir vinir. Þegar ég flutti svo aftur til Íslands þá gaf hún mér panflautu að skilnaðargjöf,” segir Sigurgeir sem lærði á blokkflautu fyrst en færði sig svo yfir í panflautuna með tímanum og hefur nú alveg lagt blokkflautuna á hilluna en spilar því meira á panflautuna.
Byrjaði í fjölskylduboðum
„Mér hefur alltaf þótt mjög gaman að spila en ég spilaði mest samt bara í fjölskylduboðum og þannig. Fólk er ekki mikið að leita að panflaututónleikum á Íslandi. Ekki enn sem komið er að minnsta kosti,” segir Sigurgeir og hlær en það var fermingarárið 2009 markaði visst upphaf hjá honum.
„Þegar ég fermdist fékk ég það í fermingargjöf að fara í stúdíó hjá frænda mínum og taka upp nokkur lög á flautuna. Hann hjálpaði til með útsetningar og undirspil á synthesizer. Lögin brenndi ég á disk og öpplódaði svo einu þeirra á Youtube rásina mína. Þetta er lagið Chiquitita sem mamma hefur alltaf haldið svakalega mikið upp á og það virðist vera tilfellið hjá fleirum því lagið sem ég spila er núna þrettánda vinsælasta panflautulagið á Youtube. Margir hafa sagt við mig að þetta sé eiginlega frekar mikill heiður að maður hafi náð svona langt. Það kveikir aðeins í þjóðarstoltinu að maður, sem Íslendingur, hafi náð svona langt með að spila sænskt lag á panflautu og allur heimurinn er að fíla það.”
Félag íslenskra panflautuleikara – FÍP
Þekkirðu marga Íslendinga sem spila á svona flautu?
„Nei, því miður. Ég þekki bara engann en mig langar að setja á laggirnar hóp á Facebook til að sjá hvort það séu ekki fleiri sem hafa gaman af þessu. Seinna væri gaman að stofna Félag íslenskra Panflautuleikara og vonandi eru einhverjir blokkflautu leikarar, eða fólk sem kann á annarskonar flautur, til í að æfa sig á panflautur. Það er hægt að gera mjög flottar útsetningar þegar margir koma saman að spila á panflautur.”
Sigurgeir segir að hann hafi ekki haft mikinn tíma til að spila þegar hann var að klára menntaskólann en eftir að hann fór í vinnu hefur myndast meiri tími fyrir hann til að æfa sig og spila.
„Ég stefni meira að segja á að gefa út mitt eigið lag í vetur og set það þá bæði inn á SoundCloud og Youtube. Vinsældir Abba lagsins hafa vaxið hægt og bítandi síðan 2009. Ég varð ekkert viral á einni nóttu en kannski gerist þetta fyrr með næsta lag, nú þegar fólk þekkir Youtube rásina mína og svona.
Að lokum getur Sigurgeir þess að frægðin á Youtube hafi ekki skilað honum neinu stórkostlegu en þó hafi hann haft eitthvað upp úr krafsinu.
„Ég er enginn milljónamæringur en maður hefur samt fengið smá aukatekjur. Ég keypti mér iPhone 5s þegar hann kom á markaðinn fyrir peninga sem komu inn í gegnum þetta. Kannski verður það eitthvað meira þegar lagið mitt kemur út í vetur. Ég vona bara að aðdáendur panflautunnar kunni að meta það,” segir hann hægverskur að lokum.
Við óskum Sigurgeiri til hamingju með árangurinn og vonumst til að hann nái langt með lagið sem kemur út í vetur.
[youtube]https://youtu.be/qqkO3pmo-Rs[/youtube]
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.