Parísarlýsingar í Minnisbók Sigurðar Pálssonar eru í miklu uppáhaldi hjá mér. Ég las þessa bók þegar hún kom út og heillaðist strax af sögunni, draumórakenndri og rómantískri.
Drakk í mig hverja einustu setningu og París birtist mér þarna ljóslifandi í liprum texta Sigurðar. Þetta var akkúrat sú París sem ég þekki og elska. Ég gat fundið lyktina af götunum, kaffinu og rauðvíninu. Fann líka kuldann og hungrið, vonina og ástina læðast bakdyrameginn inn í brjóstið. Ástina á borginni sem svo margir elska og eiga góðar minningar um.
Sigurður Pálsson er oft kenndur við París. Minnisbókin hans sýnir borgina eins og hún raunverulega er. Sigurður segir frá fólkinu sem býr í París og því sem hann, ungur maðurinn lendir í.
Ég er sérstaklega þakklát Sigurði fyrir að hafa fléttað ljóðunum sínum inn í minnisbókina en þannig hófst óvænt fyrsti alvöru ljóðalesturinn minn.
Parísarljóðin skrifaði hann oft milli svefns og vöku; jazzaður, hífaður, timbraður, kaffivímaður.
Það er svo að bestu hlutir gerast óvænt og ég kolféll fyrir ljóðinu
Nóttin er til þess að gráta í:
Nóttin er til þess að gráta í
Til þess að brosa í
Hnerra og hiksta
Til þess að slangra
og dræv´út í buskann í
Nóttin er til þess að gráta í
Til þess að röfla í
Hakka í sig pulsur í
Til þess að hugsa
og speglast í rúðum í
Nóttin er til þess að gráta í
Til þess að flauta blús í
Velkjast og urra í
Til þess að reyna við
og rupl´og ríð´í
Nóttin er til þess að gráta í
Til þess að hvolfa útí skurð í
Brjóta allt í kássu í
Til þess að (æ hvers vegna
þú vinur) deyja í
Sigurður Pálsson, Minnisbók, JPV Útgáfa, Reykjavík, 2007, bls. 227-228
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.