Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir er flestum íslendingum vel kunn sem vasklegur þáttastjórnandi í Íslandi í Dag. Hún hefur lengi starfað við fjölmiðla en þess á milli gerir hún sitthvað fleira eins og að flækjast til framandi landa og undirbúa flugnám.
Áttu auðvelt með að sofna á kvöldin eða hugsarðu of mikið?
Ég myndi líklega ekki sofna auðveldlega nema ég væri rotuð. Maðurinn minn er sem betur fer mikill friðarsinni og hefur því tekið upp á því að lesa mig í svefn við sérlega svæsin svefnleysistækifæri. Ronja Ræningjadóttir hefur reynst vel.
Hefurðu séð draug, álf eða geimveru? Nei því miður, ég bíð spennt.
Þekkirðu óvenjulega marga einstaklinga í sama stjörnumerkinu og hvaða merki er það? Ekki svo ég viti til. Sem kemur kannski til af því að ég man ekki afmælisdaga nema ég sé logguð inn á Facebook.
Í hvaða stjörnumerki ert þú? Sporðdreki
Áttu uppáhalds hönnuð? Engan einn nei, það breytist eins og vindáttin. Það er svo margt fallegt þarna úti.
Flottasta fyrirmyndin? Allir þeir sem lifa lífinu á eigin forsendum, og láta ekki hefðbundin viðmið um hvernig á að gera hlutina íþyngja sér.
Uppáhalds tímasóunin? Tölvuleikir. Þori ekki að hugsa um hvað ég hef eytt mörgum klukkutímum ævinnar í að skjóta hluti á tölvuskjá.
Hvað er næsta tilhlökkunarefnið í lífi þínu?
Að hefja flugnám, sem gerist vonandi í þessum mánuði. Svo hlakka ég mikið til næsta sumarfrís, en þá er stefnan sett á Azerbaijan og nágrannalönd. Nærtækasta tilhlökkunarefnið er þó að borða alla ostana sem ég kom með heim úr jólafríinu.
Hvaða 5 hluti tækirðu með út í geim? Góða bók, tölvuna, tannbursta, einhvern ógeðslega skemmtilegan til að spjalla við og Smarties. Eitthvað verður maður að borða, og ég held það væri stuð að svífa um í þyngdarleysi í skýji af marglitum súkkulaðimolum. Myndavélin myndi líklega fá að fljóta með líka, enda ómögulegt annað að fá sér prófílmynd með jarðarkringluna í baksýn.
Hvernig bíl langar þig í ? Mig langar í ansi marga bíla. Ég er hinsvegar bílhrædd með eindæmum á almennum vegum og mér færi því líklega best að aka skriðdreka. Þangað til ég eignast svoleiðis myndi ég alveg sætta mig við hugmyndabílinn BMW Gina eða jafnvel Bugnotti Coupe. Annars langar mig eiginlega mest í orustuþotu, er það ekki alveg boðlegur ferðamáti?
Nefndu 5 uppáhalds bíómyndirnar þínar: Ég held hreinlega að ég eigi ekki fimm uppáhalds bíómyndir. En gleðst almennt yfir flestu þar sem samræður eru vel skrifaðar og mikið er sprengt.
Hefurðu verið ástfangin af poppstjörnu?
Nei, þó óprúttinn vinnufélagi hafi kannski ýjað að því með því að skrá mig í 70 Justin Bieber aðdáendaklúbba á Facebook á dögunum.
Hvaða mistök gera pör helst í samböndunum sínum?
Að tuða yfir smámunum, og gleyma því hvað heillaði við makann til að byrja með.
Hvað er skemmtilegast við það sem þú ert að gera núna?
Hvað það er fjölbreytt, dagarnir ólíkir og maður kynnist mörgu fólki. Mér leiðist afskaplega auðveldlega.
En erfiðast?
Þegar maður er í skemmtilegri vinnu tekur maður hana yfirleitt með heim.
Hvaða kaffihúsi/veitingastað viltu mæla með?
Ég er grænmetisæta, og þar sem metnaður margra staða nær ekki mikið út fyrir kjöt og fisk verð ég oft fyrir vonbrigðum með veitingastaði. Snillingurinn Hrefna Sætran er hinsvegar í miklu uppáhaldi, og Grillmarkaðurinn er sá staður sem ég hlakka mest til að fara aftur á í augnablikinu.
Hvaða starf myndirðu velja þér ef þú værir ekki að gera það sem þú ert að gera núna?
Draumadjobbin væru geimfari, bush pilot, eða njósnari. Ég geri fastlega ráð fyrir því að gera eitthvað af þessu í framtíðinni.
Hvað ertu að fara að gera á eftir?
Sofa, sem er uppáhaldshobbíið mitt eftir að ég fékk forláta dúnkodda í jólagjöf.
Að lokum: Heilræði til okkar hinna?
Verið glöð, þetta reddast allt.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.