Fyrir nokkru fundu þeir hjá frönsku verslunarkeðjunni Celio upp á nýstárlegri aðferð til að lokka kúnna inn í verslanir sínar.
Þeir sem ætla í verslunarleiðangur til Parísar þarf ekki að líða óþægilega þegar þeir versla fötin hjá Celio. Á gólfi verslunarkeðjanna eru frönsk karlmódel í öllum stærðum og gerðum; þvengmjó, bollulega vaxin, vöðvastælt, stór og smá! Margir þekkja það af eigin raun að ætla að versla á manninn sinn en kaupa óvart ranga stærð. Celio ákvað þess vegna að bjóða viðskiptavinum upp á karlmódelin sem þeir kalla “shoppenboys”. Nú er einfalt að velja sér módel sem líkist manninum þínum og biðja viðkomandi að máta fötin!
Upphaflega átti þetta að vera gott grín – en öllum að óvörum sló brandarinn í gegn svo um munaði. Karlmönnum bauðst að senda inn myndband af sér þar sem þeir áttu að dansa á nærbuxunum við hressilegt lag og yfir 2000 menn sendu inn umsókn til að komast í hóp Shoppenboys hjá Celio. Þeir heppnu stofnuðu síðan vinsælan dansflokk sem síðan setti á markaðinn dagatal! Margir þessara stráka hafa upp úr því orðið feykilega vinsælir í Frakklandi.
Mergur málsins er sá að við erum öll allskonar. Kynþokkafullir strákar koma í öllum stærðum, því stærri þeim mun meiri kynþokki og kraftur! Ekta karlmenn líkjast ekkert endilega slánunum sem við sjáum á síðum tískublaðanna! Því ættu allir að geta gengið með höfuðið hátt á lofti inn í verslanir sem senda viðskiptavininum þennan frábæra boðskap. Það ætti líka að vera skylda allra Íslendinga að horfa daglega á þennan “shoppenboy” dansa og brosa svona sætt – hann er einfaldlega með ‘etta:
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.