Ég hitti vinkonu í kaffi í vikunni. “Bella, mig langar til þess að fá hugmyndir að sexy og rómó svefnherbergi.”
Þessi vinkona mín skildi við manninn sinn núna um áramótin og er enn í íbúðinni þeirra.
„Ég hef engu breytt eða bætt við heimilið og ég finn fyrir þörf þessa dagana að taka til hendinni”, sagði hún við mig. Hana langar að mála, en veit ekki í hvaða lit. Þá langar henni að hengja upp myndir, setja upp nýjar gardínur eða skraut.
Þar sem ég hef gert upp ófá svefnherbergin gat ég gefið henni ótal góð ráð til að poppa upp svefnherbergið sitt, gert það svolítið aðlaðandi og sexy!
Þegar einar svefherbergisdyr lokast þá opnast jú aðrar… ég sagði vinkonu minni að nú skyldi hún njóta þess að vera hún sjálf í sætu og kvenlegu svefnherbergi.
Aðalatriðin til að gera svefherbergið meira aðlaðandi og sexý eru eftirfarandi:
Út með draslið
Inn með lit og myndir
Lagaðu lýsinguna
Réttu húsgögnin
Réttir fylgihlutir
1. Fyrsta skrefið er að koma öllu út sem á EKKI að vera þar inni
Þá á ég við hluti sem bíða þess að fá nýjan stað, föt sem þú notar aldrei, kassa, bækur og annað slíkt dótarí. Farðu með allt á sinn stað og gefðu það sem þú notar ekki. Það á að vera nóg pláss fyrir nýja orku í herberginu. Pakkaðu líka öllu sem hefur með gamla sambandið að gera niður í kassa og láttu hann upp á loft ef þú vilt endilega halda í minningarnar. Ekki opna hann aftur fyrr en eftir 10 ár!
2. Jesú og smábörn virka ekki vel fyrir kynlífið
Nú skaltu fjarlægja myndir af börnum og buru eða fjölskyldumeðlimum úr herberginu. Eins áttu að kippa út öllum trúartáknum því þau virka víst ekki vel á kynhvötina. Finndu svo t.d. eina fallega mynd af pari. Það má vera í faðmlögum og kossaflensi eða ekki. Þú ræður. Til að finna réttu myndina má fara margar leiðir. T.d. geturðu fundið hana í ljósmyndabók og farið svo í Samskipti og látið stækka hana upp -flottur rammi í Ikea og málið er dautt.
3. Það verður að vera góð lýsing í svefnherberginu þínu
Sjálf er ég með ‘kristalskrónu’ hangandi niður úr horni, einn rauðan lampa og eitt lesljós. Ég hef oftast kveikt á þessum rauða enda er ég yfirleitt of þreytt til að lesa á kvöldin. Flatt ‘gangaljós’ í loftinu eða rússapera er alls ekki að gera sig og þú átt eiginlega ekki að kveikja á loftljósinu nema þegar þú ert að þrífa. Dimmerar eru líka mjög góðir í svefnherbergið. Nokkur góð kerti á fallegum bakka geta líka tekið sig vel út á náttborði eða skenk.
4. Svefnherbergi á aldrei að vera troðið af húsgögnum
Þau eru flottust þegar þau eru minimal en samt hlýleg og hreinleg. Þú þarft í raun hirslur fyrir föt, náttborð og hugsanlega snyrtiborð í herbergið þitt ef þú ert pjattrófa eins og ég. Þar má gjarnan vera spegill en ekki láta hann snúa að rúminu þannig að þú horfir í spegil þegar þú ert komin upp í. Það ku vera slæmt Feng Shui. Farðu og splæstu þér í ný sængurföt og jafnvel rúmteppi og púðaver í stíl. Þú getur keypt þetta í Ikea á spottprís. Þar sem við notum yfirleitt ekki fleiri en eitt eða tvö sett af sængurfötum finnst mér mikilvægt að hafa þau í góðum gæðum. Hentu þessum gömlu eða gefðu þau Hjálpræðishernum. Nú er kominn tími á eitthvað nýtt.
5. Hafðu tvennskonar gluggatjöld í svefnherberginu
Annarsvegar rúllugardínu sem blokkerar ljósið og hinsvegar gluggatjöld yfir þeim. Ég er hrifnust af hlutlausum gluggatjöldum sem eru í sama lit og veggurinn í kring = hvít. Mér finnst líka fallega elegant að láta þau ná frá lofti niður í gólf.
Ef þú ert ekki með rúmgafl geturðu keypt þér annaðhvort veggfóður og lista eða málningu og einfaldlega málað vegginn við höfðagaflinn, veggfóðrað hann allann eða búið til höfðagafl með því að setja fyrst upp veggfóður og ramma það svo inn með listum sem þú málar með háglans lakki. Annars er hægt að gera höfðagafla úr hinu og þessu, jafnvel borðplötu af gömlu borðstofuborði eða mdf plötum sem þú lætur skera eftir máli og festir svo saman.
Smelltu á myndirnar til að stækka þær!
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.