Hvernig á að giftast milljónamæringi? Maður spyr sig… svarið er að finna í myndinni How to Marry a Millionare, mynd sem kom út árið 1953 og skartar þeim Betty Grable, Lauren Bacall og Marilyn Monroe.
Myndin hefst á því að þær stöllur leigja saman rándýra íbúð á Manhattan, algjörlega án þess að hafa efni á því, en það ‘reddast’ sjáðu til því þær ætla sér allar að krækja í forríka menn.
Forsprakki áætlunarinnar er Schatze Page (Lauren Bacall) en hún er jafnframt gáfaðari en hinar tvær og leggur því alltaf á ráðin um hvernig þetta eigi að takast.
Í upphafi myndarinnar sjáum við þær vinkonur taka því rólega á svölum þakíbúðarinnar, reykja og drekka kampavín og úthugsa áætlunina. Þessi sena minnti mig mjög svo á Beðmál í Borginni, þrjár vinkonur í New York að velta sér upp úr karlamálum, – mjög skemmtilegt. Ekki líður svo á löngu þar til framkvæmdirnar fara í gang en þær takast með mjög misjöfnum hætti hjá þeim stöllum.
Lauren Bacall eða Schatze Page er gáfaða stelpan, Monroe eða Pola Debevoise, er ringlaða ljóskan og stuðboltinn Loco Dempsey er leikin af Betty Grable.
Þær eru ekki lengi að krækja sér í karla en auðvitað fer þetta ekki alltaf eftir áætlun hjá þeim og í því felst fjörið í myndinni sem er sakleysisleg og skemmtileg.
Eitt af því skemmtilegasta við að horfa á þessa mynd síðan 1953 er stíllinn í henni.
Persónulega er ég haldin einhverju alvarlegu blæti fyrir árabilinu 1950-60 og var því stöðugt að skoða hönnun, fatnað, taktíkina og allt sem einkennir áratuginn meðan ég horfði á myndina.
Íbúðin sem stelpurnar leigja er t.a.m algjör draumur og mikið af flottum smáatriðum þar sem gaman var að taka eftir. T.d. uppsetningin á skrifborðinu, með risastórum lampa og styttu og stóllinn, eða bekkurinn fyrir framan, – milljón dollara samsetning. Sést á neðstu mynd.
Ég verð að viðurkenna að þrátt fyrir mikla aðdáun mína á bæði Bacall og Monroe hef ég ekki séð margar myndir með þeim. Hugsa meira að segja að ég hafi séð fleiri með Angelinu Jolie, sem ég hef þó ekkert sérstakt dálæti á. Að minnsta kosti finnst mér þessar gömlu stjörnur talsvert meira heillandi.
Týpan sem Monroe leikur í myndinni er frekar fyndin. Hún er t.d. mjög nærsýn en kýs að ganga ekki með gleraugu af því “þá reynir enginn við hana”. Skemmtileg sena hér neðst þar sem hún útskýrir þetta.
How to Marry a Millionare er ein fyrsta myndin sem var tekin í Cinemascope, eða það sem í dag þekkist sem wide-screen. Hún er líka einstaklega litrík, í Technicolour, og því mjög öðruvísi og skemmtilegt að horfa á hana. Á þessum tíma var jú ekkert litasjónvarp til og því agalega mikið upplifelsi að fara í bíó og sjá LIT – mynd.
Ég mæli með því að horfa á þessa skemmtilegu mynd. Hún er til á Netflix, – og svo geturðu bara horft á hana beint HÉR.
Ekki láta byrjunina fæla þig frá en af einhverjum ástæðum ákvað leikstjórinn að hefja myndina á mjög löngu og leiðinlegu lagi. Myndin er nefninlega mjög skemmtileg.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.