Hver hefur heyrt um borg sem ilmar dásamlega hvert sem maður fer? Ég hafði ekki upplifað slíkt áður en ég kom til Sevilla á Spáni en það er ekki lítið sem sú borg heillaði mig.
Hún er falleg, gjöful og hrein enda er Sevilla ein ríkasta borgin á Spáni. Húsin eru vel hirt og falleg og hvert sem maður kemur fyllir appelsínu angan vitin en götur borgarinnar eru fullar af appelsínutrjám. Þú finnur líka ilminn af rósum, reykelsum og rauðvíni en á öðru hverju horni situr fólk með Rioja og kaþólikkarnir tilbiðja dýrlingana með reykelsum meðan rósirnar blómstra.
Ég hef heldur sjaldan séð eins mikið samansafn af flottu fólki og í þessari borg. Þá sérstaklega konurnar sem eru hver annari glæsilegri. Allt algjörar pjattrófur sem er ekki skrítið því það er æðislegt að versla í Sevilla.
Maturinn er auðvitað frábær líka og þar bera tapas staðirnir af. Tapas menningin í Sevilla er með eindæmum skemmtileg og hugsanlega ástæða þess að allir í þessari borg virðast vera í kjörþyngd.
Á Spáni borðar fólk seint en á allra vinsælustu tapas stöðunum borðar fólk bara standandi.
Sumir fara meira að segja með diskana sína út, setjast á næstu tröppur og hafa diskinn í kjöltunni. Maturinn er auðvitað ekki alltaf sá hollasti í heimi en það skiptir ekki máli því með því að fá þér tapas ertu alltaf að smakka litla rétti. Skammtastærðirnar gilda.
Fleira dásamlegt sem nefna má við þessa borg er má nefna arabíska baðhúsið, Flamenco hátíð og hráskinku, ólífu og vínsmökkunarferðir um Andalúsíu.
Ég skora á þig að kynnast Seville betur því hún er svo dásamleg og kona lifir víst bara einu sinni.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.