Á þessum árstíma færist grilleldamennskan í aukana hjá landanum og þá er tilvalið að prófa nýjar leiðir og uppskriftir. Kjúklingur er feykivinsæll í grillveislum og það er gaman og gott, fljótlegt og hentugt að grilla hann og bera fram á grillspjótum. Hér er ein æðisleg uppskrift að kryddlegi sem gerir kjúklingakjötið einstaklega meyrt og gott.
Uppistaðan í kryddleginum er sesamolía sem er í miklu uppáhaldi hjá mér í matargerðinni.
Sesamolía gefur einstakan keim og passar sérlega vel í kjúklinga- og fiskrétti og einnig ýmsa grænmetisrétti.
Hún er góð til að steikja í og einnig sem bragðauki í sósur og maríneringar. Sesamolía er ómissandi út á núðlurétti en af henni er mildur hnetukeimur .Hún er búin til úr ristuðum sesamfræjum og er því mjög holl og sögð hafa ýmis góð líkamleg áhrif, sérstaklega á húð og liði.
- 600 g kjúklingakjöt
- 2 msk. sesamfræ
- 2 msk. sesamolía
- 2 msk. ólífuolía
- 2-3 msk. ferskt timjan
- salt
Uppskriftin sem hér er gefin að kryddlegi, og er úr bókinni minni Eldað af lífi og sál, er miðuð fyrir um 600 g af kjúklingakjöti, best er að nota bringur sem sneiddar eru í hæfilega bita eða lundir. Kjúklingakjötið er síðan látið liggja í nokkra stund í kryddleginum, t.d. um 30 mínútur og grillað þar til gegnumsteikt, tíminn fer eftir stærð bitanna. Sömu uppskrift er sjálfsagt að nota á kjúklingakjöt sem á að steikja á pönnu eða baka í ofni. Gott er að pensla afganginum af kryddleginum á kjötið meðan á eldun stendur.
Ef notaðir eru trépinnar við grillunina er nauðsynlegt að láta þá liggja í bleyti í um hálftíma áður en þrætt er upp á þá, annars brenna þeir illa við eldamennskuna.

Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.