Þessi pistill birtist fyrst í jan 2012 – upphaf pólaríseringarinnar
Pólitísk “umræða” á netinu og í fjölmiðlum á Íslandi er undarlegt fyrirbæri. Vinkona mín sem býr erlendis og fylgist vel með orðaði þetta svona:
„Það er alltaf bara eitt mál í gangi og tvær skoðanir- Skoðun A eða skoðun B. Hægri eða vinstri skoðun. Það eru engin blæbrigði og engar uppbyggilegar umræður. Þú ert bara sammála eða ósammála. Það er ekkert þarna á milli.” Sammála.
Hægri og vinstri, karl og kona, vonda og góða
Einn vinkill í þessu hægri/vinstri, A og B, dæmi er til dæmis umræðan um góða fólkið vs. hægra fólkið.
Umburðarlynda (góða) fólkið er skiljanlega ekki hægra megin. Það er vitað að hægrisinnað fólk, kapítalistarnir, er á eilífu eiginhagsmuna egóflippi og nennir ekki að vera gott ókunnuga. Tími er peningar.
Umburðarlynda fólkið er ekki svona. Það vill vera gott við næstum því alla en aðallega þá sem tilheyra minnihlutahópum. En samt bara sumum minnihlutahópum. Alls ekki öllum.
Til dæmis eru Vottar Jehóva minnihlutahópur á Íslandi með 666 meðlimi en umburðarlynda fólkið er ekki að pæla neitt sérstaklega í að vera næs við Vottana þó þau séu jaðarhópur. Umburðarlyndið snýr að þeim sem eru útvaldir hverju sinni en gagnvart skoðunum eða pælingum hægrisinnaðra er umburðarlyndið samkvæmt stjórnarskrá þeirra Núll. Ávallt og undir öllum kringumstæðum.
„Hvernig verður það fyrir nýinnflutta trámatíseraða ungmúslimana að upplifa frjálsar geirvörtur á Austurvelli ?“
Ef kapítalistinn spyr til dæmis: „Hvernig verður það fyrir nýinnflutta trámatíseraða ungmúslimana að upplifa frjálsar geirvörtur á Austurvelli næsta sumar eða fara á Þjóðhátíð í Eyjum?” eða „Eigum nokkuð við fyrir þessu?” eða „Hvernig væri að senda transkonu í heimsmeistarakeppnina í ólympískum lyftingum kvenna,“ þá sprangar umburðarlynda fólkið upp og vænir egósenteríska fólkið um slæmt innræti, fordóma, kynþáttahatur, skort á víðsýni og gríðarlegan skort á umburðarlyndi.
Þetta er vissulega erfitt fyrir hægrisinnaðan egóistann. En ekki hvað?
Auðvitað er erfitt að velta upp skoðun eða spurningu (hvort sem er af einlægni eða vilja til að ögra) og vera strax rekinn í skammarkrók á netinu, eða hreinlega vísað í útlegð, vegna þess að spurningin eða skoðunin samræmist ekki skoðunum pólitískra andstæðinga eða nákvæmlega þeirri sem á mest upp á pallborðið þá vikuna.
Auðvitað finnst hinum svonefnda egóista erfitt að skoðanir hans eða hennar séu med det samme afgreiddar sem fordómar, hatur og mannvonska í andlegum greiningardeildum þeirra á góða vængnum og að engin áheyrn eða frekari umræða sé í boði. Að fá tjöru og fiður yfir hausinn og mega ekki tjá sig lengur út af sveiflu sem átti sér stað á netinu.
„Ræðum þetta frekar, leyfðu mér að hlusta, ertu til í að útskýra betur?“
… sagði enginn aldrei í neinu kommentakerfi neinnsstaðar á jörðinni ever.
Ef engin umræða er í boði þá kallar það á frústrasjón og upp úr frústrasjón spretta leiðindi. Leiðindi eins og kaldhæðnislega uppnefnið „góða fólkið”. Krafan um „umburðarlyndi“ fyrir ákveðnum hópum að hætti Jesú blessaðs er pólitískt stjórntæki eins og við vitum- og sé kröfunni ranglega beitt þá höfum við kúgun af verstu gerð. Geðlæknisfræðin kallar hana guilt tripping eða sektarstjórnun. Fólk fer í Al-Anon til að venja sig af þessu.
Hví þá?
Að gera öðru fólki upp skoðanir eða hugsanir, og kúga það svo út frá því, er hörmulegt stjórntæki sem kallar alltaf fram uppreisn á endanum. Þá byrja þessi kúguðu oft að hafa skoðanir sem þau höfðu kannski ekki í upphafi, en tileinka sér af því það er stöðugt verið að væna þau um þær.
Besta dæmið er að finna í hjónaböndum þegar annar aðilinn er sífellt vænd/ur um framhjáhald án þess að hann eða hún sé að halda framhjá. Á endanum hugsar viðkomandi fokkitt, fyrst þú trúir því upp á mig að ég sé alltaf að halda framhjá þá skal ég bara halda framhjá þér! Og svo er gengið í málið.
En veistu… fyrst þá er hjónabandið komið í raunveruleg vandræði.
Að þessu sögðu þá er kommentakerfi hér neðst á síðunni, ótengt FB, og þér er frjálst að tjá þig þar undir nefni eða dulnefni, uppnefni eða whatever. Tjáðu þig bara 😉
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.