Þórlaug Ágústsdóttir, áhugasaumakona í Sólheimum í Reykjavík, gekk í það mál að sauma sínar eigin andlitsgrímur í sóttkvínni.
„Hugmyndin kom frá Tékkneskum saumakonum sem ég sá í kvöldfréttatímanum á RÚV. Þær lögðu sitt af mörkum með því að sauma sínar eigin enda sala á grímum takmörkuð víða til að tryggja að heilbrigðisstarfsfólk hafi aðgang að nægum birgðum,“ segir Þórlaug..
„Mér til mikillar ánægju fann ég svo strax nokkrar mismunandi útgáfur af sniðum á netinu og ákvað að prófa mig áfram með þær.“
Þórlaug saumar grímurnar úr grisju-tusku-efni sem hún keypti upphaflega til að sauma heimabuxur.
„Ég keypti það hjá honum Ali sem sendir Express á netinu. Fyrst efnið var svona þægilegt fyrir botninn á mér giskaði ég á að það yrði líka þægilegt fyrir toppstykkið og það reyndist rétt,“ segir Þórlaug sem keypti þrjá liti af efni og segist enn eiga nóg til. Hún segir líka að framleiðslan muni bara fara eftir eftirspurn og hvað henni muni leiðast mikið.
Hönnuð til að reka bóndabæ
Spurð að því hvort hún saumi sjálf mikið segist hún oft grínast með það að náttúran hafi hannað hana til að reka bóndabæ:
„Mér finnst óskaplega gaman að allskonar hannyrðum og heimaumbótum. Allt frá útsaumi til vefnaðar eða smíða en eftir að bakið hætti að leyfa mér að smíða verð ég að láta mér textílinn nægja.“
Spáir tískubylgju
Að lokum segist saumakonan alveg geta séð fyrir sér tískubylgju með grímurnar og vill reyndar meina að bylgjan sé farin af stað.
„Þú sérð varla heilbrigðisstarfsmann sem er ekki með grímu og svo erum við hin byrjuð að herma eftir. WHO, alþjóðastofnunin mælir sterklega með því að ákveðnir hópar noti grímur og þar sem ég er í flensu-áhættuhóp verð ég að fara extra varlega, og þó þetta hafi byrjað sem eitthvað djók þá reikna ég ekki með að fara grímulaus út á næstunn,i svo ég á líklega eftir að sauma mér fleiri grímur til að gera lífið skemmtilegra. Nú og ef einhver hefur áhuga á að ég saumi svona grímu þá er viðkomandi frjálst að hafa samband á Facebook,“ segir hún og hlær.
Hér er svo linkur á leiðbeiningar um hvernig á að sauma svona grímur. Fínt fyrir saumakonur í sóttkví.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.